145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku var kjördæmavika. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins funduðu víða um landið og er gaman að segja frá því að á annað þúsund manns mættu á þá fundi sem fram fóru.

Helstu umræðuefni fundanna voru málefni hjúkrunarheimila, en margir hafa áhyggjur af þeim heimilum sem rekin eru á ábyrgð sveitarfélaga og óskuðu eftir því að þær viðræður sem í gangi eru skili sem fyrst viðunandi niðurstöðu fyrir alla aðila.

Auk þessa var mikið fjallað um búvörusamninga og samgöngur en mikil eftirspurn er eftir því að samgönguáætlun verði lögð fram.

Rætt var um málefni aldraðra og öryrkja. Ánægja var með að viðræður væru í gangi á milli Landssambands eldri borgara og ríkisins um kjaramál þessara stóru hópa. Mikilvægt er að þær viðræður klárist hratt og vel því að lausn verður að koma fram í þessum málum sem allra fyrst.

Jafnframt voru umræður um að varast skyldi að tala um þennan stóra hóp fólks sem eina heild því að afstaða og kjör þessara einstaklinga væru mjög svo misjöfn.

Auk þessa var mikið rætt um húsnæðismál og mikilvægi þess að þau nái fram að ganga. Mikil þörf er á leiguhúsnæði víða um landið. Afar jákvætt var að finna þann stuðning sem við höfum í málinu. Það gefur okkur enn meiri kraft í að ljúka þessum málum hratt og vel.

Vert er að geta þess að gestakomum til hv. velferðarnefndar vegna málanna er að ljúka. Stefnt er að afgreiða málin úr nefndinni á allra næstu vikum.

Auk þessa voru verðtryggingarmálin mikið rædd og hv. þingmenn brýndir til góðra verka í þeim málum og að láta ekki deigan síga þrátt fyrir að varðhundar verðtryggingarinnar leynist víða. Fjallað var um mikilvægi þess að ríkisstjórnin komi fram með frumvarp um afnám verðtryggingar og fylgi þar með þeim tillögum sem sérfræðingahópar um afnám verðtryggingar skiluðu í janúar 2014. Þar undir liggur heildarsamhengi húsnæðismálanna og endurskoða þarf það vaxtaumhverfi sem við búum við. Skoða þarf hvata til sparnaðar og vinna að heildarsamhengi húsnæðismálanna.


Tengd mál