145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að tala um ástandið í ferðaþjónustunni. Ég get tekið undir með hv. þingmanni sem hér talaði áðan um að ástandið væri grafalvarlegt. Það er hreint með ólíkindum hversu lítið hefur gerst, sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við áttum að byrja að skoða þennan málaflokk fyrir 30 árum og móta stefnu en það að horfa til framtíðar er kannski ekki alveg sterkasta hlið okkar Íslendinga. Hér hafa menn verið að brölta við að koma með frumvarp um náttúrupassa. Það tók sinn tíma. Það var ekki stuðningur fyrir því í þinginu. Ég sé engar aðrar hugmyndir hjá stjórnvöldum um það hvernig við ætlum að reyna að innheimta eitthvert sanngjarnt gjald af þessari atvinnugrein til að standa undir þjónustunni sem þarf að vera. Við sjáum á hverjum degi að við erum í rauninni ekki í stakk búin til að taka á móti öllum þessum fjölda ferðamanna. Á sama tíma erum við á fullu í markaðsstarfi þótt við getum ekki boðið gestunum okkar sem hingað koma í rauninni bara lágmarksöryggi. Mér finnst svo löngu kominn tími til að hætta að tala um þetta og byrja að framkvæma.

Ég var að gúgla til að reyna að komast að því hvað væri í gangi hjá Stjórnstöð ferðamála. Ég efast ekki um að þar eru menn að vinna eitthvað, leyfi mér að minnsta kosti að vona það, en tíminn líður og eins og hefur verið sagt hér spyr ég: Af hverju ráðumst við ekki strax í uppbyggingu á stöðum þar sem hún er nauðsynleg? Ég held að við þurfum að taka dýpri og meiri umræðu um þetta í þingsal og ég kalla eftir svörum frá hæstv. ráðherra málaflokksins vegna þess að þetta er eiginlega óboðlegt.

Á síðasta kjörtímabili var það skref stigið að stofna Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Því voru ýmis vandræði tengd, kannski of hátt hlutfall sem ég held (Forseti hringir.) að sveitarfélögin hafi þurft að setja á móti. Við erum að breyta þessu en þetta er samt allt að gerast of seint þannig að ég kalla eftir aðgerðum, virðulegur forseti. Þetta gengur ekki svona lengur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna