145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er undir frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, skilyrði fjárhagsaðstoðar.

Ég er í seinni ræðu og mér finnst að með gjörðum þessarar ríkisstjórnar sé stöðugt vegið að þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það er akkúrat sá hópur sem er kominn á þann stað að þurfa að nýta sér félagsaðstoð sveitarfélaga.

Nú á að stilla fólki upp við vegg með ströngum skilyrðum, því fólki sem á að fara í mat á því hvort það sé vinnufært eða ekki. Ég spyr: Hver á að gera það mat? Hver er til þess bær að meta slíkt? Er vinnumarkaðurinn tilbúinn til að taka til sín fólk með skerta vinnugetu?

Ég tel að það þurfi að vera til staðar öflugar vinnumarkaðsaðgerðir og að unnið sé með fólki undir jákvæðum formerkjum í ýmiss konar virkniúrræðum. Fólkið í þeim hópi sem stígur þau erfiðu skref að leita fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga er auðvitað ólíkt innbyrðis. Oft er þetta fólk sem er félagslega illa statt í lífinu, hefur misst vinnuna og á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta er eins konar endastöð hjá því. Oftar en ekki er þetta ungt fólk sem hefur farið út af beinu brautinni, á ekki rétt á atvinnuleysisbótum og getur ekki framfleytt sér og leitar því til sveitarfélags síns.

Við eigum að taka utan um þetta fólk og bjóða því aðstoð við að komast aftur af stað út í lífið en undir þeim formerkjum að ekki sé verið að þvinga fólk og refsa því ef það uppfyllir ekki þau ströngu skilyrði sem sveitarfélögum er heimilt að setja, eins og kemur fram í þessu frumvarpi.

Þetta kom ágætlega fram í umsögn frá Öryrkjabandalaginu þegar sambærilegt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Lögum samkvæmt er markmið félagsþjónustu sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar, meðal annars með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti. Skerðing eða jafnvel niðurfelling fjárhagsaðstoðar í allt að sex mánuði í senn, ef vinnuskilyrðum er ekki mætt, gengur gegn markmiðum félagsþjónustunnar. Enn fremur segir í markmiðsgrein laganna að þess skuli gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar „að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar.““

Ég tek hjartanlega undir þessa málsgrein í umsögn Öryrkjabandalagsins frá því í fyrra við sambærilegt frumvarp sem lagt var fram um þetta mál.

Að mínu mati er þetta mjög vont mál. Við þekkjum nýlega skýrslu sem UNICEF gerði um efnahagslegan skort barna í þjóðfélaginu. Sá hópur sem stendur frammi fyrir því að börn þeirra njóta ekki þeirra réttinda og efnahagslegs öryggis sem við gerum ráð fyrir samanstendur oft og tíðum af ungu fólki sem býr í lélegu húsnæði. Sá hópur hefur oftar en ekki þurft að leita aðstoðar sveitarfélaga.

Ætlum við með ströngum skilyrðum að jafnvel henda þessu fólki út af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga í allt að sex mánuði eins og er talað um í frumvarpinu? Ég segi (Forseti hringir.) nei og vona að þetta vonda mál verði dregið til baka.