145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru auðvitað allt alveg réttmætar vangaveltur. En við erum kannski ekki þar stödd í þessari umræðu að finna út úr því hvort þetta eigi heima hjá sveitarfélögum eða ríki, þó að það sé alveg réttmætt að ræða það.

Í frumvarpinu er einungis talað um að verið sé að beita meiri skerðingu miðað við það fyrirkomulag sem er í dag. Ég hef kannski ekki heyrt sveitarfélög eða sveitarstjórnir kvarta yfir því að þau hafi þær skyldur að bera ábyrgð á fjárhagsaðstoð íbúa sinna lögum samkvæmt.

Ég tel að skipting tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga geri ráð fyrir þessari kvöð á sveitarfélögunum og að þau fái þá líka í gegnum jöfnunarsjóð stuðning til að standa undir þessari þjónustu þar sem það við á; og sé gert ráð fyrir því í skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég held að það sé alls ekkert slæmt að hafa þetta verkefni í höndum sveitarfélaga sem geta séð hvar viðkomandi er staddur og hvaða möguleika hann hefur til að koma sér aftur út í lífið.

Sveitarfélögin eru auðvitað að bjóða upp á ýmsa félagsþjónustu eins og sálfræðiaðstoð og geðhjálp og ýmislegt annað og síðan koma heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið líka þar að. Svo að ég held að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem eru best til þess fallin að vera í nærumhverfi fólks. En við þurfum að tryggja að vel sé að verki staðið og að það fjármagn sem þarf sé áætlað í það til þess að þetta gangi allt upp.