145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nokkuð sem ég held að vinna með þessum einstaklingum eigi að leiða í ljós. Við erum öll sammála um að að sjálfsögðu á að aðstoða fólk og gera allt sem hægt er til þess að koma því út úr þessum aðstæðum því að enginn á að þurfa að dæmast í svona stöðu til langrar frambúðar. Að endingu getur þá þurft að vega og meta það: Er viðkomandi á réttum stað í kerfinu? Þá erum við væntanlega að tala um að hann búi orðið varanlega við einhverjar þær hamlanir eða örorku að hann verði að meðhöndlast sem slíkur. Það á auðvitað að vera tímabundið úrræði í eðli sínu. Og við skulum ekki gleyma því að þetta snýst ekki alltaf bara um einstaklinga sem eru algerlega óvinnufærir eða ekki hafa fengið vinnu, það getur líka snúist um einstaklinga sem hafa einhverja takmarkaða starfsgetu og eru jafnvel að reyna að afla sér einhverra tekna en þær duga ekki til. Aðstæður þeirra eru þannig þungar og erfiðar og það þekkja þeir sem kynnt hafa sér þessi mál hjá sveitarfélögunum að þau eru iðulega með fjárhagsaðstoð sem uppbót til tekjulágra einstaklinga eða mjög tekjulágra einstaklinga sem ekki ná endum saman nema með viðbótarstuðningi frá sveitarfélagi sínu. Þar kemur að ábyrgð nærsamfélagsins sem ég talaði um áðan og ég er ekki viss um að skynsamlegt sé að hrófla við því. Í sjálfu sér hefur það ekki verið á dagskrá í þessum efnum að sveitarfélögin eða nærsamfélagið beri áfram tilteknar skyldur þarna gagnvart þessum grunnþörfum eins og því að hafa í sig og á og hafa þak yfir höfuðið þannig að enginn svelti, að enginn sé án húsnæðis. Þar kemur að ábyrgð nærsamfélagsins.

Það hindrar ekki að unnið sé með þessum aðilum (Forseti hringir.) og til dæmis sett inn tímamörk af því tagi að (Forseti hringir.) það hringi bjöllur þegar menn hafa verið þar í tiltekinn (Forseti hringir.) tíma og þá skuli farið í sérstakt prógramm með þeim o.s.frv.