145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir viðhorfi hv. þingmanns og deili því að einhverjum hluta með honum. Ég er engan veginn sannfærður um að þetta sé gott frumvarp en ég er heldur ekki sannfærður um að andstaðan við frumvarpið sé til þess fallin að leysa vandann, sem ég tel okkur hv. þingmann vera sammála mér um að leysa, sem er auðvitað að tryggja hagsmuni og réttindi þeirra sem lenda út undan í þessu öllu saman.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri betri nýting á tíma okkar að reyna að laga almannatryggingakerfið. Vissulega er ýmislegt að þar.

Hér er verið að tala um skilyrðingar sem ég fæ ekki betur séð en að eigi einungis við fólk sem er vinnufært að hluta eða öllu leyti og skilyrðingarnar eru skilyrtar sjálfar. Þær eru að umsækjandi hafi frumkvæði að starfsleit og því um líku, sem ég sé ekki að neinn ætti í raun að eiga í neinum teljandi vandræðum með, nema viðkomandi eigi heima í almannatryggingakerfinu sem getur vel verið tilfellið. Við þurfum að laga það. En ég er ekki lengur sannfærður um að þetta frumvarp sé jafn ægilegt og margir vilja meina því að það snýst ekki eftir því sem ég best fæ séð um fólk sem ekki getur ráðið aðstæðum sínum.

Ég veit svo sem ekki hvaða fleiri svör ég get kreist úr visku hv. þingmanns í þessu efni, en vangaveltur mínar um þetta efni sitja enn í mér. Ég fæ ekki enn séð að frumvarpið sé hræðilegt. Aftur á móti er ég algjörlega sammála hv. þingmanni um að auðvitað eiga þessi úrræði að vera uppbyggileg frekar en einhvers konar hótanir um niðurrif eða að ganga á hagsmuni fólks. Þess vegna er ég ekki heldur sannfærður um að þetta sé gott frumvarp. Eftir standa vandi minn og vangaveltur, ég veit ekki hvort hv. þingmaður geti hjálpað mér eitthvað frekar með það.