145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að einu leyti getum við hugsað þetta í samhengi við almannatryggingakerfið, eins og hv. þingmaður gerir og spyr: Ætti þetta þá ekki að vera verkefni þar? Almannatryggingakerfið stendur í grunninn saman af tveimur hópum, þ.e. öldruðum, þeim sem komnir eru á eftirlaunaaldur og fá greiðslur í samræmi við það eða eftir atvikum uppbætur úr því kerfi ofan á þann lífeyri sem þeir hafa sjálfir tryggt sér á vinnumarkaði, og hinum hópnum sem eru öryrkjar. Það eru þeir sem úrskurðaðir hafa verið öryrkjar að hluta eða að fullu og eru þá óvinnufærir og fá framfærslu í samræmi við það. Með öðrum orðum, yngra fólk sem ekki fyllir orðið hóp aldraðra og á rétt í almannatryggingakerfinu sem slíkt og ekki hefur verið úrskurðað öryrkjar, er þarna á milli og á þá rétt á hvorum staðnum. Ef það hefur verið utan vinnumarkaðarins um einhvern tíma, jafnvel það lengi að það hafi fullnýtt rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta, getur það hafnað í þeirri stöðu að vera þarna á milli, þ.e. það hefur ekki verið úrskurðað öryrkjar, á ekki heima í almannatryggingakerfinu á þeim grunni og hefur ekki náð þeim aldri að teljast aldraðir og eiga rétt til greiðslna eða til töku lífeyris.

Spurningin er þá: Viljum við breyta því? Viljum við opna þriðja farveginn inn í almannatryggingakerfið, sem er þá fólk sem ekki nær endum saman til framfærslu þó að það tilheyri enn sem komið er hvorugum hópnum, að hafa verið úrskurðað öryrkjar að einhverju leyti, óvinnufært að einhverju leyti eða hafi náð eftirlaunaaldri? Svona er kerfið samansett hjá okkur. Við getum auðvitað skipst á skoðunum um margt í þeim efnum, en þetta á sér djúpar sögulegar rætur eins og ég hef áður sagt.

Ég held að drifhvati þessa frumvarps hafi verið sá að menn óttuðust það á meðan atvinnuleysið var hér í verulegum hæðum (Forseti hringir.) að þegar einhverjir færu að týnast út af atvinnuleysisbótaskránni og yfir á framfærslu hjá sveitarfélögunum yrði það þung byrði á (Forseti hringir.) sveitarfélögum. Sú hætta er að mestu leyti liðin hjá þannig að ég segi bara, herra forseti, og sennilega er nú að líða að lokum þessarar umræðu (Forseti hringir.) og ræðutíminn búinn: Gefum okkur góðan tíma til að skoða þetta.