145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann segir að það sé vegna skilyrðinga sem fólki hafi fækkað á fjárhagsaðstoð. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla því. Það er beint samband á milli atvinnuástands og fjölda fólks á fjárhagsaðstoð, enda er það rökrétt, fjárhagsaðstoðin grípur inn í þegar fólk á erfitt með að finna sér aðra framfærslu og hefur fyllt rétt sinn í atvinnuleysistryggingakerfinu eða á ekki aftur rétt þar inni.

Ég og hv. þingmaður erum sammála um að hvatning er mjög mikilvæg. Í Hafnarfirði voru það ekki skilyrðingarnar sem skiptu sköpum heldur sá metnaður bæjarins að vera með atvinnuframboð fyrir fólk á fjárhagsaðstoð og setja miklu meiri kraft í að leita leiða fyrir fólk til að komast út úr ástandi atvinnuleysis sem eykur hættuna á að daga uppi á fjárhagsaðstoð þó að langflestir sem eru á fjárhagsaðstoð séu það bara um skamman tíma.

Sýnt var úr þessu verkefni athyglisvert viðtal við tvo unga menn sem voru mjög ánægðir með að fá vinnu. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir að það væru skilyrðingar inni í þessu verkefni. Það hafði ekkert komið til þess. Það segir okkur að ef sveitarfélögin eru með framboð við hæfi fólks eru skilyrðingarnar algert aukaatriði. En þær eru eitur í beinum okkar margra af því að okkur finnst þær bera keim af gömlu hugmyndafræðinni um fátæktarframfærslu.

Ég spyr því þingmanninn hvort hann telji virkilega að þessi árangur hafi ekki orðið glæsilegur (Forseti hringir.) einmitt út af því að framboðið af alls kyns úrræðum var aukið en ekki vegna skilyrðinga.