145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:57]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir andsvar. Það er alveg hárrétt, og ég gleymdi að geta þess í ræðu minni áðan, að gott atvinnuástand hefur jákvæð áhrif hvað varðar fækkun á framfærslunni. Það er engin spurning. Það hafði ég punktað hjá mér en það kom ekki fram hjá mér áðan.

Ég held að því miður, og við þekkjum það sem höfum komið nálægt þessum málum, sé ungt fólk afar fljótt að beygja af og missa þráðinn í lífinu þegar atvinnuleysi sverfur að og bæturnar fara að berast inn um lúguna; fólk fer að læra á að lifa af litlu fjármagni. Einhvern veginn nær það endum saman og það er alveg ljóst, það segja mér vísari menn en ég í þessum málum, að skilyrðingar eru oft mjög nauðsynlegar til þess að ýta við fólki og koma því af stað.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er einhver ömurlegasta staða sem nokkur maður lendir í að geta ekki risið upp á hverjum morgni og farið til vinnu og unnið fyrir sér og fjölskyldu sinni og verið eins og ærlegur maður. Það er niðurlægjandi að vera í þeirri stöðu. Maður óskar ekki nokkrum manni þess. En í samanburði á stærri skala virðist það vera nákvæmlega sama hvar við erum í samfélaginu, jafnvel í samfélagi þjóðanna, þar næst ekkert fram nema með skilyrðingum, þó að það sé ekki samanburðarhæft. En það er mikilvægt að fagleg vinnubrögð séu notuð og unnið með þessu fólki til að hjálpa því til sjálfshjálpar. Ég held að það sé það mikilvægasta sem við getum gert.