145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er einmitt að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Ég er mjög hlynnt einhvers konar hvatningarkerfi þar sem fólk er hvatt áfram. Flestir eru mjög skamman tíma á fjárhagsaðstoð en það fólk sem lendir þar — af því að það á ekki réttindi í atvinnuleysistryggingum, hefur ekki náð að fóta sig á vinnumarkaði — er oft ungt fólk sem hefur gengið á margar lokaðar dyr um ævina. Skólaferill þess einkennist af skilningsleysi kerfisins á aðstæðum þess, mætir ekki þörfum þess. Það endar með því — af því að viðkomandi einstaklingur fær aldrei að njóta sannmælis eða þroska hæfileika sína, af því að kerfið er ekki sniðið að þörfum hans — að þá geta sumir af þessum einstaklingum endað inni á fjárhagsaðstoð. Þá þarf mikla hvatningu. Þá þarf einmitt að mæta manneskjunni þar sem hún er og vinna með styrkleika hvers og eins. Það er það sem við öll vitum, það virkar best fyrir mig að vinna með styrkleika mína. Það er sammannlegt. Það þarf að efla sjálfstraust okkar og sjálfsmynd til þess að geta virkað í samfélaginu.

Það sem veldur mér áhyggjum, af því að ég held að við getum svo auðveldlega komið svona hvatningarkerfi á án þess að vera með skilyrðingar, er að einmitt þegar við spurðum út í verkefnið í Hafnarfirði, hvað yrði um fólkið sem hafnaði utan kerfisins vegna skilyrðinga, þá skilaði bærinn auðu. Þau vissu ekkert um það. Ég spyr: Hefur hv. þingmaður (Forseti hringir.) engar áhyggjur af því hvað verður um fólk sem hafnar utan kerfisins vegna skilyrðingar?