145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:01]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Við erum sammála um það, ég og hæstv. þingmaður, að í flestum tilfellum er um ungt fólk að ræða sem lendir í sorglegum aðstæðum og endar inni á fjárhagsaðstoð eins og hún minntist réttilega á.

Í þessu plaggi kemur það nákvæmlega fram sem hér var sagt, að unnið sé með styrkleika þessara einstaklinga og það er gríðarlega mikilvægt. Hér segir að allir umsækjendur um framfærsluaðstoð eigi rétt á þjónustu og einstaklingsbundnu mati á aðstæðum og hagsmunum umsækjanda þar sem virkni og virðing fyrir hverjum og einum er höfð að leiðarljósi. Ég held að það sé einmitt lykillinn í því faglega starfi sem Hafnarfjörður er að sinna.

Auðvitað hefur maður áhyggjur af fólki sem fær ekki framfærslu, það væri nú annað hvort. Þess vegna held ég að Hafnfirðingar hafi enn 120 manns á framfærslu. Vegna þess að þeir fara varlega í sakirnar. Þeir beita fíkla ekki harðræði. Þeir taka þá ekki af fjárhagsaðstoð. Og fólk sem á langt í land með að geta farið út á almennan vinnumarkað — það er gríðarlega mikilvægt að hjálpa því. Það hefur komið í ljós að skilyrðingar, sem eru nú ekki mjög harðar fyrir fólk sem hefur starfsgetu og kemst í gegnum það mat að geta unnið, eru ekki það þungar að nokkur maður ætti að þurfa að beygja sig undan þeim.