145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einmitt þess vegna sem ég ákvað að fara í þessar umræður, þ.e. af því að ég á ekki sæti í velferðarnefnd. Ég verð ekki í umræðunni þar. Hv. þingmaður hins vegar á sæti í velferðarnefnd. (Gripið fram í: Varamaður.) Nú, varamaður, jæja. Þá þurfum við bara að koma því einhvern veginn á framfæri. Ef það er mjög óheppilegt — og þingmaðurinn veit það betur en ég, ég er ekki besta manneskjan til að dæma það hér og nú. Það eru einhverjir færari um það en ég. Það þarf að kanna hvort Vinnumálastofnun er bær til þess að meta hvort fólk er vinnufært eða ekki. Ef það er ekki góð stofnun til þess, hver er þá hæfari en Vinnumálastofnun? Breytum frumvarpinu og fáum einhvern sem er fær til þess að meta vinnufærni fólks, þ.e. ef hugur manna stendur til að samþykkja frumvarpið. Það er það sem ég er að segja. Bætum þá frekar frumvarpið þannig að fólk viti nokkurn veginn hvar það stendur. Það veit það ekki núna vegna þess að engin lög eru um hvort skilyrða má fólk eða ekki. Við höfum það þá í þeim farvegi að við treystum fólkinu sem meta á vinnufærnina.

Hvað varðar hin uppburðarlitlu ungmenni sem lent hafa í einhverju þá legg ég til að í stað þess að krefjast þess að slíkar manneskjur hafi uppburði í að fara í virka atvinnuleit skrifum við það þá inn í frumvarpið að sveitarfélögunum sé skylt að hjálpa fólki í virkri atvinnuleit í stað þess að það þurfi að taka það upp hjá sjálfu sér. (Forseti hringir.) Það verða þá einhverjir sem taka það upp hjá sjálfum sér og öðrum þarf að hjálpa. Sjáum þá til þess að það verði gert. Það er viðhorf mitt til þessa máls.