145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:30]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að blanda mér í þessa umræðu. Ég á sæti í velferðarnefnd og við ræddum þetta mál mikið á síðasta þingi.

Sitt sýnist hverjum um þetta mál en ég held að allir séu sammála um markmið frumvarpsins sem eru að auka möguleika sveitarfélaga til að veita þiggjendum fjárhagsaðstoðar uppbyggilegt aðhald til virkni. Það sem hræðir mig í þessu er að við uppfyllum ekki þau skilyrði sem til dæmis er að finna í stjórnarskránni í 76. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Í 25. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir í rauninni það sama, að við verðum að tryggja öllum lífsviðurværi og að fólk eigi að fá að búa við mannlega reisn. Við megum ekki senda neinn út á guð og gaddinn.

En þetta er ekki það. Ég er búinn að velta þessu mikið fyrir mér og við í Bjartri framtíð höfum rætt málið mikið. Það er eins með þetta og svo margt annað að það eru skiptar skoðanir á því. Aðalatriðið kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og ég get tekið undir margt sem hún sagði.

Það kemur fram í frumvarpinu að óheimilt sé að skerða fjárhagsaðstoð sem sé sérstaklega vegna framfærslu barna og þar mætum við kannski barnasáttmálanum. Ég velti því fyrir mér ef við ætlum að fara að vera með þessar skilyrðingar hvort við uppfyllum þá ekki þau skilyrði sem við setjum okkur sjálf í stjórnarskránni, sem eru æðstu lög landsins, og þau sem eru í 25. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ég tel að við verðum að gera eitthvað. Þetta frumvarp kom fram í kjölfar þess að atvinnuleysisbótatíminn var styttur í tvö og hálft ár, atvinnulausir gátu verið á atvinnuleysisskrá í tvö og hálft ár í staðinn fyrir þrjú ár. Það hafði það óhjákvæmilega í för með sér að byrðar sveitarfélaganna jukust og einhvern veginn þurfti að mæta þeim. Þá kom þetta í kjölfarið og maður fór að velta fyrir sér: Bíddu, er það þannig sem þau ætla að bæta sér upp þessar auknu álögur, með því að koma fleirum út? En það er kannski fullgróft að ætla sér að þau séu að gera þetta þannig.

Við þurfum að vera með einhverja jákvæða hvata fyrir fólk til þess að það verði virkt. Mig langar til að nefna að í frétt í júní í fyrra segir Hermann Óttarsson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, að það sé vaxandi fátækt á Íslandi. Þar kemur fram að bæði fólk af erlendum uppruna og aldraðir eigi mjög erfitt. Það sé kominn fram stór hópur ungs fólks sem eigi erfitt með að fóta sig í samfélaginu og sá hópur telji um 5.000 manns. Þetta séu krakkar, eða ég veit það ekki, ég sé að hæstv. ráðherra hristir hausinn, en Hermann segir að þetta séu krakkar á aldrinum 15–23 ára sem eru föst inni á heimilunum. Þau komi sér ekki út af heimilinu og séu kannski á fjárhagsaðstoð, ég veit það ekki, og sætti sig við að lifa við þá lágu fjárhagsaðstoð sem þau fá frá sveitarfélaginu. Nú veit ég ekki hvort þetta er rétt en Hermann segir það alla vega og ég er að vitna í hann.

Mig langar til að segja frá því, og ég sagði líka frá því í ræðu minni sem ég hélt um þetta mál á síðasta þingi, að ég hef starfað við þetta í sveitarfélaginu mínu. Þar var tekin ákvörðun um að setja skilyrðingar, ungu fólki sem var á framfærslu bæjarins voru sett skilyrði til þess að reyna að ná þeim. Þetta voru unglingar eða ungmenni í þeirri stöðu sem Hermann talar um í fréttinni, föst inni á heimilunum og komust ekki út, höfðu enga sjálfsvirðingu, ekkert sjálfsöryggi né neitt. Þau voru bara inni á heimilinu í tölvunni og hreyfðu sig ekki. Þau voru algjörlega óvirk. Gjörsamlega.

Það var tekin ákvörðun um að setja þeim skilyrði til þess að þau nýttu sér þau úrræði og það tilboð sem var verið að gera þeim. Í þessu frumvarpi kemur einmitt fram að það er verið að gera fólki visst tilboð. Þetta var ekki gert með offorsi eða frekju eða látum heldur var þeim bent á að þetta væri gert til þess að reyna að hjálpa þeim. Fimm einstaklingum var boðið þetta, tveir fluttu á meðan það var í gangi, hugsanlega vegna þess að verið var að biðja um þetta, en ég veit að einn einstaklinganna blómstrar í dag. Svo var einn sem hafði áhuga en foreldrar stoppuðu það af. Það voru svo tveir aðrir sem nýttu sér þetta úrræði. Ég get sagt ykkur að ég var með þessum ungmennum á hverjum einasta degi í sex vikur. Ég náði í þau á morgnana, fór með þau út um allt og ástandið á þeim fyrst þegar ég tók við þeim var skelfilegt. Maður hugsaði bara: Jesús minn, hvað eru margir í íslensku samfélagi sem búa við sömu aðstæður og þessi ungmenni? Það voru vægast sagt skelfilegar aðstæður sem þau bjuggu við og það var engin framtíðarsýn, engin von. Þau héngu bara heima hjá sér.

Í dag, fjórum árum eftir að þetta átak í Grindavík fór í gang, eru þessi ungmenni bæði, sem voru 18 og 19 ára þá, útskrifuð úr skóla, annað er virkt á vinnumarkaði og hitt byrjaði í háskóla í haust. Það er þetta sem fær mig til þess að hugsa mig tvisvar um varðandi þetta frumvarp. Ég get eiginlega ekki verið á móti því vegna þess að ég hef séð árangurinn af þessu. En við getum hugsanlega bætt frumvarpið. Við getum bætt orðalagið, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Gert þetta allt saman jákvæðara, gert þetta saman í sátt og samlyndi en ekki með neinum látum.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta er svona. Við urðum fyrir gríðarlegu áfalli árið 2009. Atvinnuleysi jókst ótrúlega og það vita þeir sem hafa verið atvinnulausir til lengri tíma að það er skelfileg lífsreynsla og það er óbærilegt ástand að vera atvinnulaus. Ég kynntist því sjálfur á sínum tíma. En þetta er ótrúlega erfitt. Það vill enginn vera atvinnulaus. Það vilja örugglega allir vera á vinnumarkaði að afla tekna fyrir sig og fjölskyldu sína.

Þegar ég var að kenna í Fisktækniskólanum voru vinnuúrræði í gegnum Nám er vinnandi vegur og fleira og maður þurfti að sækja fólk svo það kæmi á námskeið. Þetta var fjölskyldufólk, í mörgum tilfellum fjölskyldufeður sem áttu gríðarlega erfitt og áttu mjög erfitt með að koma sér af stað. Þetta er ekki einfalt. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg og það eru margir sem eru fyllilega líkamlega tilbúnir í vinnu en ekki andlega. Þess vegna er þetta mjög erfitt viðfangs. Aðalatriðið er að við gerum þetta á manneskjulegan hátt og ég efast ekki um að það sé stefnan. Það er náttúrlega markmiðið að gera þetta þannig.

Við vitum að innan félagsþjónustu sveitarfélaga vinnur fagfólk sem leggur sig allt fram við að gera þetta rétt. En við megum ekki missa okkur í einhverjum upphrópunum og látum og hrópa úlfur, úlfur yfir þessu, að við séum að mismuna fólki. Eins og ég nefndi áður eru einu áhyggjur mínar að við uppfyllum ekki skilyrði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans.

Síðan hefur komið fram og það kom fram áðan að þetta hefur gengið vel í Hafnarfirði en það veit enginn hvað varð um þetta brottfall, þessa 15, ég hef heyrt töluna 15 í því samhengi, sem hurfu út af fjárhagsaðstoð. Enginn veit hvar þeir enduðu. Það finnst mér áhyggjuefni, að vita ekki hvar einstaklingar lenda ef þeir fara út af fjárhagsaðstoð. Fara þeir að brjóta af sér? Lenda þeir inni á heimili hjá öldruðum foreldrum sínum, ef þetta eru ungmenni, sem eiga kannski líka erfitt? Mér finnst að við þurfum að gefa því gaum hvað geti hugsanlega gerst og hvaða önnur úrræði eru í boði. Við getum ekki látið það gerast að sveitarfélög fái heimild til að vísa fólki út af fjárhagsaðstoð og við vitum svo ekki hvað verður um það. Það finnst mér mikið atriði.

En ég verð alltaf jákvæðari og jákvæðari gangvart þessu frumvarpi því að ég tel að við eigum að gera allt sem við getum til að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Ef við getum breytt þessu á þann hátt að það verði jákvætt, ekki neikvæðar skilyrðingar heldur frekar hvatning og stuðningur, held ég að við verðum gott mál í höndunum.

Það kemur fram í 2. gr. að sveitarstjórnum sé heimilt að setja skilyrði í reglur um veitingu fjárhagsaðstoðar og þá fer maður að velta fyrir sér hvernig þetta verður hjá sveitarfélögunum, sum þeirra gera það kannski og önnur ekki. Mun það þýða að fólk flytur úr einu sveitarfélagi í annað þar sem þetta er ekki gert? Það vakna spurningar um mörg atriði sem verða að vera alveg á hreinu.

Þetta kemur til meðferðar velferðarnefndar eins og áður og ég vona og veit að það verður mjög öflug umræða þar inni þar sem skoðanir eru skiptar. En ég vona svo sannarlega að við komumst að niðurstöðu í þessu máli sem flestir geta verið sáttir við, niðurstöðu sem leiðir til þess að við fækkum fólki á fjárhagsaðstoð og eflum það í vinnu.

Svo er það hvatinn fyrir þetta fólk til að fara út á vinnumarkað. Það er allt annar handleggur. Ég get alveg sagt að það er ekkert rosalega mikill hvati til að fara í fiskvinnu í sveitarfélaginu mínu. Fyrir átta tíma vinnu þar fást afskaplega lág laun sem eru ekki til þess fallin að menn sláist um að fá að vinna þar. Við sjáum það líka í fiskvinnslu á Íslandi að nánast 100% starfsfólks er útlendingar.

Við vorum um daginn með Vestnorræna ráðinu í Grindavík og fórum í heimsókn í fyrirtæki, m.a. í Vísi sem er mjög öflugt fyrirtæki í Grindavík. Þeir dáðust að því glæsilega frystihúsi sem þar var og horfðu yfir salinn og það var ekki einn einasti Íslendingur að vinna í þessu stóra húsi, í vinnslunni. Það segir margt um þá launastefnu og þau laun sem við bjóðum fólki í dag sem vinnur verkamannavinnu. Þetta gerir það að verkum að fólk er á atvinnuleysisskrá og sækist ekki endilega eftir því að fara að vinna, þegar launin eru örfáum þúsundum hærri en atvinnuleysisbætur.

Við Íslendingar eigum að taka okkur saman í andlitinu og breyta þessu, hækka laun og styrkja fólk til þess að það hafi hvata til að fara að vinna.

Hvað sem öðru líður segi ég aftur að ég vona að þetta frumvarp fái góða umræðu og umfjöllun. Við ræddum málið tímunum saman í velferðarnefnd á síðasta þingi þannig að kannski þarf ekki að ræða það mjög mikið. Ég ber alla vega þá von í brjósti að við komumst að góðri niðurstöðu sem leiðir til þess að við eflum fólk sem hefur verið á fjárhagsaðstoð og hjálpum því til virkni í samfélaginu.