145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir fyrirspurnina og þakka henni fyrir að vera í salnum. Það er til mikillar eftirbreytni að sjá ráðherra í salnum þegar við ræðum mál af þessu tagi.

Ég er sammála henni um að við Íslendingar eigum ótrúlega mikið af frábæru ungu fólki sem við getum verið mjög stolt af. Við verðum að halda í það og gera allt sem við getum til að halda í það. Það hefur verið áhyggjuefni á síðustu missirum hve margir hafa flutt í burtu.

En ég er sammála því að margt hefur verið gert vel og börnunum okkar líður betur og betur. Við erum að átta okkur betur á því sem samfélag hversu mikilvægt það er að börnum líði vel. Síðan er annað sem þarf að hafa í huga, til þess kannski að fyrirbyggja að fólk lendi í svona aðstæðum — það verður alltaf í öllum samfélögum hópur fólks sem lendir utangarðs, því miður þá er það þannig. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að bæði í skólakerfinu og leikskólakerfinu, þar sem margt fagfólk vinnur, að við grípum miklu fyrr inn í. Það er svo auðvelt að sjá hvar skórinn kreppir og þá eigum við sem samfélag að grípa inn í og hjálpa og veita öllum sem eiga erfitt aðstoð.

Ég veit ekki hvort þessar tölur eru réttar sem ég nefndi hér áðan og var að vitna í. En ef 5.000 ungmenni eru föst inni á heimilum sínum þá er það gríðarlega alvarlegt. Ég nefni líka nýja skýrslu frá UNICEF sem segir að yfir 6.000 börn búi við varanlegan efnislegan skort. Það er eitthvað sem við verðum að skoða líka. Hversu margir af þeim eiga foreldra á fjárhagsaðstoð? Þetta er svo viðamikið og við þurfum að vanda okkur við að gera þetta vel.

En ég trúi því að með mikilli samstöðu og samræðum þá getum við komist að niðurstöðu sem allir eru sáttir við.