145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir ræðuna. Hann kom inn á efni sem hefur verið mér mjög hugleikið í allri þessari umræðu. Þar sem sveitarfélögin eru nú þegar að beita skilyrðingum þá er fólk eðli málsins samkvæmt að verða fyrir þeim. Eins og hv. þingmaður benti á þá vitum við ekki hvað verður um þennan hóp.

Það kom fram hér fyrr í umræðunni, í máli hæstv. ráðherra, að nú sé verið að vinna í gagnasöfnun um umgjörð á félagsþjónustu sveitarfélaganna. Mín persónulega skoðun er sú að þetta sé allt of seint því eins og við vitum öll þá er verið að leggja þetta frumvarp fram í annað sinn. Í hv. velferðarnefnd á síðasta þingi kallaði minni hlutinn eftir alls konar upplýsingum, meðal annars um það hverjir það væru sem verið væri að beita skilyrðingum til að reyna að kortleggja þann hóp.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að það sé mjög bagalegt að nú þegar hæstv. ráðherra er að leggja málið fram í annað sinn þá fylgi engar konkret upplýsingar um þann hóp. Þetta hefur áhrif á umræðuna hér í þingsal. Við erum svolítið að fálma í myrkrinu þrátt fyrir að hv. velferðarnefnd hafi á síðasta þingi reynt að kalla eftir upplýsingum. Ég spyr hvort þetta sé ekki bagalegt.