145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir svarið. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir. Ég held að allir þeir, alla vega sem ég hef heyrt í í umræðunni, deili ekki um markmiðin í sjálfu sér. Ég hef fylgst ágætlega með umræðunni og farið yfir umsagnir þar sem ég á ekki sæti í hv. velferðarnefnd. Lausnin sem finna þarf í þessu máli — þetta er mildileg leið. Þegar upp er staðið þá gerir það enginn að gamni sínu að vera í þessari stöðu. Þarna er um lögbundna þjónustu að ræða. Þess vegna velti ég þessu upp.

Til upprifjunar fyrir hv. þingmann er sagt að í slíku mati þurfi að rökstyðja að önnur úrræði hafi verið fullreynd og að skerðing sé réttlætanleg og í samræmi við ákvæði samkvæmt félagsþjónustu. Ég velti því upp hér hvort (Forseti hringir.) tryggja þurfi betur þetta mat í frumvarpinu og hvernig staðið sé að því þannig að við getum snúið neikvæðri nálgun í jákvæða.