145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, hugsanlega þarf að gera það og skerpa á því hverjir eiga að gera það þannig að það sé algjörlega á hreinu. Ég held að það sé alveg ljóst að svo verður að vera. Það verður að vera algjörlega yfir allan vafa hafið hvort manneskjan er tilbúin til að fara að vinna eða ekki. Þá verður að leita allra leiða til þessa að gera þetta vel og rétt, því að auðvitað viljum við ekki senda fólk út á vinnumarkaðinn sem er ekki til þess bært. Það segir sig sjálft að fólk sem þannig er ástatt um og fær skilyrta aðstoð hverfur út af kortinu, ef ég má orða það þannig, eins og kom fyrir í Hafnarfirði. Þar voru 15 einstaklingar sem fóru bara og enginn veit hvar eru. Það er eitt af því sem ég vil að við leggjum mikla áherslu á í þessu máli, að tryggja að fólk sem lendir í þeirri stöðu týnist ekki. Hvað verður um það? Hvert fer það? Mun það kosta samfélagið enn þá meira en að veita því fjárhagsaðstoð? Það er lykilatriði í þessu máli að við vöndum okkur og gerum þetta faglega.