145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru sennilega fáir í þessum sal, kannski einn hv. þingmaður, sem er jafn mikið á móti tollum og sá sem hér stendur. Ég hef ekkert á móti skattlagningu á borð við tekjuskatt og virðisaukaskatt. Þótt ég hafi skoðanir á þessum sköttum þá þykja mér tollar eitt versta form af skattheimtu sem um getur og er í grundvallaratriðum á móti þeim.

En burt séð frá því vona ég að það sé rétt hjá hv. þingmanni að samtalið við Kína skili umbótum þar í landi, ekki bara gagnvart vinnumarkaði heldur lýðræðishugsjóninni í sjálfri sér. Það er samtal sem við áttum á sínum tíma, heldur langt ef ég man rétt, og ég sé svo sem ekki ástæðu til að dvelja mikið við það hérna.

Mér þótti þetta þó áhugavert vegna þess að þetta er notað sem röksemd fyrir þessari tillögu og röksemdin er mjög góð, vil ég ítreka. Röksemdin þykir mér góð. Sú staðreynd að Japan og Ísland hafi sameiginlega sýn á grundvallargildi svokallaðra vestrænna lýðræðissamfélaga, sem eru auðvitað ekki eingöngu vestræn, þykir mér veigamikill þáttur í að við eigum að samtvinna svona markaði.

Við eigum í raun og veru, ég kann kannski ekki að orða þetta nógu snyrtilega, að vera svolítið háð hvert öðru. Ég held að það sé til bóta bæði fyrir heimsfriðinn og framgang lýðræðisins. Ég sé hins vegar ekki það sama með Kína enda er þar einnig gríðarlegur aflsmunur á ferð, og er nú Japan ekki fámennt land miðað við Ísland. En Kína er auðvitað fjölmennasta land í heiminum.

Ég er þó sammála því sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að Asía væri góður framtíðarmarkaður og ég hef ekki enn þá séð spá um mannfjölda eða efnahagsmál til lengri tíma sem gefur nokkuð annað til kynna.

Þannig að ég fagna þeirri tillögu sem hv. þingmaður leggur hér fram. En þá verð ég líka að segja að ég fagna sérstaklega rökstuðningnum því hann er góður og hann á að vera til staðar og til grundvallar svona samningum.