145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:16]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framlagningu þessarar þingsályktunartillögu sem ég fagna og styð. Ég fagna að hún sé komin fram þótt ekki væri nema til að vekja athygli á því mikilvæga máli sem eru tollar og frjáls viðskipti á milli landa.

Ég rek augun í að í greinargerð með þingsályktunartillögunni er nefnt, svo ég hnýti í eitthvert formsatriði, að bifreiðar séu tollfrjálsar vörur. Einmitt í því sambandi er ágætt að hafa í huga að bifreiðar eru undirlagðar mjög háum gjöldum, innflutningsgjöldum hér sem eru ígildi tolla. Vörugjöld eru lögð á bifreiðar frá 0% upp í 65%. Menn geta kallað það vörugjöld eða tolla. Það eru auðvitað tollar og það er gríðarlega mikilvægt að huga að þessu samspili tolla og vörugjalda þegar menn ræða þetta. En ég ætla ekki að ræða það hér.

Gallinn við fríverslunarsamninga er oft á tíðum sá að menn sem jafnvel eru fylgjandi fríverslunarsamningum bíta það í sig að ekki megi ganga lengra en fríverslunarsamningar kveða á um. Það mætti segja að í tollamálum væru uppi tveir skólar. Annars vegar skólinn sem ég verð að segja að ég aðhyllist, að menn eigi að afnema tolla almennt óháð því hvað önnur ríki ætla að gera. Menn eiga að taka til heima hjá sér og huga að þegnum sínum og hagsmunum þeirra.

Hinn skólinn lýtur að því að ekki megi afnema tolla umfram það sem önnur ríki gera vegna þess að við verðum að hafa einhverja skiptimynt, segja menn, í viðræðum við aðrar þjóðir um aðgang að vörum okkar. Menn líta á tolla sem skiptimynt.

Mig langaði að heyra hvorum skólanum hv. þingmaður teldi sig tilheyra, ef ég mætti gerast svo djörf að flokka þetta gróflega.