145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er enginn ofsatrúarmaður í þessum efnum. Ég er eins og einn hv. þingmaður sagði áðan ekki á móti því að menn borgi skatta en ég hef verið á móti tollum og aðflutningsgjöldum og hv. þingmaður getur skoðað feril minn í þeim efnum. Ég hef alltaf stutt afnám þeirra.

Ég sat einu sinni í ríkisstjórn með flokki hv. þingmanns þar sem var ákveðið að ráðast í að fella niður öll aðflutningsgjöld. Atburðarásin var með þeim hætti að ekki vannst tími til þess en það var þó samþykkt í ríkisstjórninni.

Ég verð að segja sem ég hugsa hérna standandi að ég tel að það væri farsælla til lengri tíma litið að geta notað niðurfellingu á tollum til þess að fá sams konar niðurfellingu tolla í öðru landi. Ég held að til langs tíma litið mundi það skipta meira máli. En ég skil hina hugmyndafræðilegu afstöðu sem hv. þingmaður er með. Ég tel að sú leið sem ég aðhyllist mundi færa með sér meiri gæði gagnvart neytendum bæði í mínu landi og viðskiptalandinu.

En hv. þingmaður hefur auðvitað borið hinn efri hlut í þessum efnum. Núverandi ríkisstjórn er meira og minna með mínu atkvæði búin að fella niður stóran hluta af aðflutningsgjöldum, sem þýðir í reynd að miðað við þann skóla sem hún aðhyllist ekki er búið að afsala sér ákveðnu vogarafli. Það féll ekki í góðan jarðveg í að minnsta kosti tveimur ráðuneytum þegar það var hér til umræðu.

Svo rifja ég það upp að á sínum tíma þegar verið var að ganga frá samningnum við Kína var allt í einu rekinn skörungur inn í þær samningaviðræður af hálfu Íslands. Embættismönnum í fjármálaráðuneytinu fannst ófært að tapa þeim 2 milljörðum eða hvað það nú var sem ríkissjóður hefði fengið í tekjur ef ekki hefði verið gerður samningurinn.

Ég held að við getum horft á stöðuna núna og séð að allt teiknar sig upp (Forseti hringir.) til þess að ávinningur íslenskra neytenda sé miklu meiri en það og verði það í framtíðinni.