145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:21]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er rétt, vörugjöldin hafa öll verið afnumin og tollar af fatnaði og skóm hafa verið afnumdir. Þessi ríkisstjórn horfir til þess að ganga lengra í einhverjum málaflokkum þar að lútandi.

En ég skil það þá rétt að hv. þingmaður sé ekki þeirrar skoðunar að afnema eigi tolla hér? Tökum landbúnaðarafurðirnar sem dæmi, að það eigi ekki afnema sérstaka tolla þar að lútandi?

Ég er þeirrar skoðunar að einmitt sú aðgerð sem þessi ríkisstjórn hefur farið í, afnám á vörugjöldum og tollum á fatnaði, eigi að liðka til við vonandi fyrirhugaðar samningaviðræður við Japan og önnur ríki. Menn hafa þá ekkert upp á okkur í þessu landi að klaga í þeim efnum. Þetta er sú skiptimynt, mesta skiptimyntin sem við getum boðið: Hér er frjáls aðgangur. Hvað viljið þið meira? Það eigum við að nota. Tvímælalaust.

Ísland hefur mikla reynslu af fríverslunarsamningum. Við höfum hinn stóra EES-samning sem er einn allsherjarfríverslunarsamningur við mörg ríki í Evrópu, helstu viðskiptalönd okkar mörg hver. Ísland hefur síðan samning í gegnum EFTA við nokkur ríki og Ísland hefur einhliða samning, reyndar aðeins við þrjú ríki, ég held ég fari rétt með; Kína, Færeyjar og Grænland. Ísland hefur meiri reynslu í að taka þátt í samningum með öðrum en ég tel tvímælalaust að Ísland eigi að beita sér meira einhliða fyrir gerð fríverslunarsamninga, tvíhliða, ég á við að Ísland standi eitt að slíkum samningum við önnur ríki, óháð afstöðu EFTA. Mér skilst að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar varðandi fyrirhugaðar viðræður við Japan.

Ég velti því fyrir mér þegar ég lít yfir lista fríverslunarsamninga EFTA að hvað Afríku varðar eru einungis samningar við ríki Suður-Afríku og Marokkó. Ég vildi gjarnan heyra hvort hv. þingmaður hafi eitthvað skoðað næstu skref í þessu, hvort hann viti um einhver lönd eða geti lagt til einhver önnur lönd sem brýnt er að fara að skoða í því sambandi?