145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:26]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu um fríverslunarsamning við Japan er merkilegt plagg í mínum huga. Hún kemur hér fram eftir að Ísland og Japan hafa átt í 60 ára stjórnmálasambandi og sömuleiðis í nánast 60 ára viðskiptasambandi. Þau viðskipti sem Ísland hefur átt við Japan hafa á ýmsan hátt verið mjög farsæl. Þau hafa leitt til verulegra framfara, hvort heldur á íslenskum heimilum ellegar í íslensku atvinnulífi. Ég vil minna á að um 1960 varð grundvallarbreyting á síldveiðum vegna veiðarfæra hér. Þau veiðarfæri sem þar komu til voru japönsk, japanskar síldarnætur og önnur veiðarfæri komu í kjölfarið.

Ísland hefur flutt inn frá japönskum fyrirtækjum túrbínur í gufuaflstöðvar og jafnvel aðrar virkjanir sem framleitt hafa birtu og yl fyrir íslensk heimili. Sömuleiðis hafa Japanar gert flestöll heimilistæki að tiltölulega ódýrri almenningseign. Það er nú reyndar ekki fyrr en á síðustu tveimur, þremur árum að við höfum horfið frá þeirri stefnu sem hér var við lýði, að tolla alla skapaða hluti og leggja síðan á vörugjöld án þess að nokkur viti enn þann dag í dag hvernig þau vörugjöld eða tollar voru ákveðin.

Það má því segja að okkar hluti í þessum samningi, afnámi tolla og vörugjalda, hafi að hluta til farið fram. Eftir standa vörugjöld á farartæki og jarðeldsneyti. Það eru þá vörugjöld á farartæki sem skipta máli í þessum samningum. Á hinum endanum höfum við flutt töluvert af sjávarafurðum til Japans. Við síðustu athugun virðist mér að eina sjávarafurðin sem er algerlega undanþegin tollum sé hvalaafurðir. Tollar á öðrum sjávarafurðum eru allt upp í 10% og það skiptir verulegu máli því að ég leyfi mér að segja að tollar skerði lífskjör, bæði hjá framleiðendum og neytendum. Það sem hér er að gerast er væntanlega til þess að bæta lífskjör á báðum stöðum, á Íslandi og í Japan.

Hér hafa verið nokkrar umræður í andsvörum um viðskiptasamninga. Ég ætla að geta þess af reynslu minni varðandi umræður um viðskiptasamninga, fríverslunarsamninga, að þeir enda alltaf á tveimur vöruflokkum, þ.e. landbúnaðarafurðum og sjávarafurðum. Báðir þessir flokkar virðast njóta sérstakrar verndar í öðrum löndum. Til dæmis nýtur sjávarútvegurinn hér á landi ákveðinnar verndar varðandi fjárfestingu í greininni. Það skilar sér í tollum í Evrópu. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að vera tollar á sjávarafurðum í Japan því að meginpróteingjafi japönsku þjóðarinnar kemur úr hafinu. Þar höfum við Íslendingar sem betur fer mikið fram að færa.

Ég vona það að þingheimur afgreiði þetta hratt og vel. Á síðasta þingi var sambærileg þingsályktunartillaga borin fram. Hún var fullunnin í utanríkismálanefnd, afgreidd, en ekki náðist að afgreiða hana hér við síðari umr. Ég vona að þingheimur beri gæfu til þess að klára þetta mál. Ég endurtek að fríverslun eykur velferð í heiminum og ég vona að þetta verði til þess að auka velferð meðal þjóða.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.