145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

uppbygging áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

150. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi. Það verður að segjast alveg eins og er að yfirskrift tillögunnar er ekki ýkja spennandi, eða aðlaðandi ef út í það er farið að meta hana með þeim gleraugum. Þessi tillaga á sér þá forsögu að hún er tilraun til þess að bregðast við einu af þeim fjölmörgu verkefnum sem sífellt aukinn fjöldi ferðamanna færir okkur á Íslandi. Það er kannski ekki óeðlilegt að á dagskrá þingfundarins í dag séu fleiri en ein tillaga sem eru sprottnar úr ranni stjórnarandstöðuþingmanna sem eru að reyna að bregðast við tilteknum viðfangsefnum sem varða þá staðreynd að við erum að glíma við gríðarlega stór vandamál að því er varðar bæði fjármögnun og innviði í ferðaþjónustunni eða þann hluta innviðanna sem ferðaþjónustuna varðar.

Í fáum orðum sagt, ef við reynum að einfalda málið sem mest, erum við að bregðast við skortinum á salernisaðstöðu á vegum úti. Ég held að allir þingflokkar og allir þingmenn hér og aðrir þeir sem hafa einhverja snertifleti við ferðaþjónustuna, leiðsögumenn, ferðafélög eða aðra aðila, hafi orðið þess áskynja að þetta er sjálfstætt vandamál. Hinn gríðarlegi fjöldi ferðamanna er víða í vandræðum með að finna salernisaðstöðu. Tillagan er í raun einföld og snýst um að nýta hluta innviða sem fyrir eru. Hún snýst um að þeir áningarstaðir sem þegar eru fyrir hendi og reknir af Vegagerðinni séu nýttir til að byggja upp salernisaðstöðu. Þannig gætum við nýtt starfsfólk, innviði og annað utanumhald sem þegar er fyrir hendi hjá Vegagerðinni úti um land allt og tryggt rekstur og utanumhald, að hreinlæti og öðrum slíkum kröfum væri fullnægt.

Eins og gefur að skilja snýst tillagan um að fela ráðherra, í þessu tilviki innanríkisráðherra, að skipa starfshóp um áningarstaði við þjóðvegi sem geri tillögu um uppbyggingu, hlutverk og þróun áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi landsins, m.a. með tilliti til þessarar skilgreindu aðstöðu. Starfshópurinn meti einnig hvort fjölga beri þessum áningarstöðum, geri tillögur um forgangsröðun í uppbyggingu áningarstaða og meti kostnað við uppbyggingu á fyrsta áfanga hennar.

Í greinargerðinni segir meðal annars að með þessari miklu fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi á undanförnum árum hefði þurft að fylgja markvissari fjárfesting í innviðum ferðaþjónustunnar en átt hefur sér stað. Við sitjum uppi með stór og smá vandamál sem stafa af því að það er skortur á þessari uppbyggingu jafnhliða fjölguninni. Stefnuleysið í málaflokknum og lausatök á viðfangsefnunum og úrræðaleysi við fjármögnun verkefna er rótin að þeirri stöðu sem upp er komin. Hér er þess freistað að ná tökum á einu afmörkuðu verkefni. Meðal þess sem hefur verið gagnrýnt mikið er nákvæmlega þessi skortur á almenningssalernum og að hreinlætisaðstöðu fyrir ferðamenn sé ábótavant, hún sé of strjál og að á stórum svæðum sé hana hreinlega ekki að finna.

Svo heppilega vill til að Vegagerðin hefur, eins og áður hefur komið fram, komið upp áningarstöðum við þjóðvegi landsins og annast þegar umhirðu þessara staða. Þessir áningarstaðir Vegagerðarinnar eru nú hvorki meira né minna en 469 talsins. Á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að þeir séu margvíslegir að stærð, gerð og útbúnaði. Enn fremur segir um þá:

„Víðast er aðstaða til að borða nesti, oft fróðleikur á skiltum um sögu eða hindurvitni í nánasta umhverfi auk þjónustu- og leiðbeiningaupplýsinga.“

Þar kemur fram að salerni eru nú þegar á 27 af þessum áningarstöðum Vegagerðarinnar. Vegagerðin hefur alllanga reynslu af því að starfrækja þá, hér erum við að tala um viðfangsefni á hendi þessarar ríkisstofnunar allt frá árinu 1987 og upphaflega fyrir hvatningu frá Félagi leiðsögumanna, enda hefur það félag aðstoðað Vegagerðina við staðarval og utanumhald, bæði á sínum tíma og síðar meir þegar uppbyggingunni vatt fram. Alla tíð hefur verið gert ráð fyrir því að hlutverk þessara áningarstaða væri tvíþætt, annars vegar væru þeir hvíldarstaðir og hins vegar útsýnisstaðir. Staðsetningin er valin með hliðsjón af þessum tveimur markmiðum. Fyrirkomulagið hefur þróast á ýmsan hátt eftir staðsetningu, þetta eru þrír áratugir sem um ræðir, bæði með tilliti til aðgengis hreyfihamlaðra og annarra slíkra þátta og auðvitað þarf að gæta að þeim sjónarmiðum öllum við uppbygginguna ef tillagan verður að veruleika.

Nú þegar þörf er fyrir aukna uppbyggingu í þágu ferðaþjónustunnar með fjölgun almenningssalerna með þjóðvegum landsins og við ferðamannastaði á landsbyggðinni virðist einboðið að byggja á þeim grunni sem þessir 469 áningarstaðir Vegagerðarinnar mynda, nýta þá innviði sem þegar eru fyrir hendi og byggja ofan á þá nýtt lag, fela stofnuninni að leggja í endurbætur á þeim sem hafi það meðal annars að markmiði, eins og segir svo fallega í greinargerðinni, „að gera ferðamönnum fært að bjarga brókum sínum við sæmandi aðstæður sem víðast með þjóðvegum landsins og við náttúruvætti. Fyrirliggjandi tillaga felur þannig í sér ábendingu um að halda áfram á þegar markaðri braut með uppbyggingu þess þáttar þjóðvegakerfisins sem snýr að þjónustu við þarfir ferðamanna, nýta þá reynslu sem fengist hefur, styrkja opinbera innviði samfélagsins og skapa störf á landsbyggðinni en þar eru flestir áfangastaðirnir eðli málsins samkvæmt.“