145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

sveitarstjórnarlög.

219. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (Bf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum, um uppbyggingu ferðamannastaða. Með frumvarpinu er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilað að leyfisskylda og innheimta leyfisgjald fyrir fénýtingu náttúrufyrirbrigða og ferðamannastaða innan þeirra marka.

Frumvarpið felur í sér að ábyrgð á ferðamannastöðum og náttúrufyrirbrigðum er færð til sveitarstjórnanna, þ.e. til þeirra sem næst þeim búa. Sveitarstjórnir eru ekki skyldugar til að leyfisskylda fénýtingu slíkra staða en fari þær út í aðgerðir af því tagi verður innheimt fé við leyfisútgáfu að renna til uppbyggingar á stöðunum sjálfum. Sveitarstjórnir verða sjálfar að meta hvaða áhrif innheimta slíks gjalds hefur á þá atvinnustarfsemi sem um ræðir.

Framangreind lagabreyting mundi leysa markmið frumvarps til laga um náttúrupassa, sem lagt var fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015, en náði ekki afgreiðslu, sem og leysa markmið frumvarps til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum sem lagt var fyrir Alþingi á sama þingi, auk þess sem það hefur verið endurflutt á yfirstandandi þingi. Þá leysir þessi lagabreyting þann vanda að ekki hefur reynst gerlegt að nýta það fjármagn sem hefur verið eyrnamerkt uppbyggingu náttúrufyrirbrigða og ferðamannastaða, meðal annars vegna skorts á áætlunum, teikningum og verktökum.

Frumvarpinu er ætlað að fela sveitarfélögunum sjálfum að meta vandann, gera samninga við þá sem skipuleggja hópferðir á staðina og standa að uppbyggingu. Þá þyrfti gjaldið ekki að vera varanlegt, það gæti staðið yfir tímabundið á meðan uppbygging stendur yfir og tekið mið af stöðu þeirra fyrirtækja sem um ræðir og eins atvinnusköpun þeirra í sveitarfélögunum sjálfum.

Verði frumvarpið að lögum má því gera ráð fyrir að yfirgripsmikill og umdeildur vandi verði leystur. Frumvarpið felur ekki í sér heimild til gjaldtöku á ferðamannastöðum heldur beinist fyrst og fremst að skipulögðum hópferðum á tiltekna staði þar sem þriðji aðili hagnast á nýtingu staðar sem hann á ekki beina aðild að, eins og til dæmis landeigandi eða sveitarfélag.

Þetta er mál sem ég hef beðið eftir að fá að mæla fyrir hér á þingi. Eins og fram kom, í þeirri greinargerð sem ég las hér upp, og fylgir málinu, tel ég að ríkisstjórninni hafi mistekist fullkomlega að takast á við þann vanda sem við blasir á mörgum ferðamannastöðum og var fullkomlega fyrirsjáanlegur svo langt aftur sem á árinu 2012 og 2011.

Ríkisstjórninni hefur mistekist að takast á við þennan vanda. Hún eyddi fyrst einu og hálfu ári í að búa til frumvarp um náttúrupassa sem reyndist flókið og viðamikið og fela í sér alls konar neikvæð hliðaráhrif. Í ljós kom að það var enginn pólitískur stuðningur, hvorki í stjórnarandstöðu né stjórnarmeirihluta, fyrir málinu. Því ónýttist það og öll sú vinna sem hafði farið fram og sú gríðarlega fundarherferð sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafði lagt í um allt land til að kynna þetta mál.

Enn fremur hefur, á vettvangi umhverfisráðuneytisins, verið smíðað frumvarp sem felur í sér metnaðarfulla langtímaáætlun, 12 ára langtímaáætlun, um uppbyggingu innviða sem nú er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, flutt í annað skiptið, og ég verð að segja að jafn óljóst er með um örlög þess og var með náttúrupassann sjálfan.

Nú er það þannig að oft er hægt að fara mun styttri og einfaldari leiðir en að semja heila og hálfa lagabálka til að leysa ákveðin vandamál. Stundum er nóg að gera breytingu á fyrirliggjandi lögum. Ég tel að með þeirri lagasetningu sem ég kynni hér til sögunnar mætti, með mjög einföldum og skjótum hætti, bregðast við hættuástandi sem blasir beinlínis við á mörgum ferðamannastöðum vegna þess að ferðamannafjöldinn er orðinn slíkur að okkur hefur ekki tekist að stuðla að uppbyggingu og sjá um uppbyggingu á þessum stöðum þannig að hægt sé að tryggja öruggt aðgengi ferðamanna; að staðirnir séu nýttir með sjálfbærum hætti og ekki verið að ganga á þessar auðlindir, þær liggi ekki undir skemmdum vegna fjölda ferðamanna o.s.frv.

Það hefur komið í ljós að ríkisstjórninni hefur mistekist ætlunarverk sitt og ég legg til að þetta verði leyst með þessum hætti. Ríkisstjórnin hefur núna í þrjú ár í röð komið með ört hækkandi upphæðir á fjáraukalögum í tilraun til að leysa þessi mál eftir á, þ.e. á haustdögum; í hinum svokölluðu fjáraukalögum koma upphæðir sem er ætlað að fara til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Og þetta hafa ekki verið neinir smápeningar, þetta hefur hlaupið á mörg hundruð milljónum, síðast rúmlega 800 milljónum, held ég, á fjáraukalögum til að reyna að mæta þessum vanda. En það dugar ekki að leysa málin með slíkum hætti eftir á. Ef það er einhvers staðar þar sem reynsluleysi og skortur á framtíðarsýn og skipulagningu blasir átakanlega við í störfum núverandi ríkisstjórnar er það í þessum málaflokki.

Það sem hér um ræðir er ákveðin útfærsla á því sem stundum hefur verið kölluð nýsjálenska leiðin. Á Nýja-Sjálandi hafa menn hagað því þannig að þegar kemur að nýtingu ferðamannastaða, fénýtingu þeirra, þurfa fyrirtæki að vera með sérstaka samninga um þá nýtingu. Þau þurfa að hafa sérstök leyfi, þurfa að skila af því leyfi og þeim samningum tiltekinni upphæð til yfirvalda og samfélagsins. Það er sambærileg hugsun sem birtist í þessu frumvarpi. Þeir sem hafa lesið það yfir og vilja gagnrýna það hafa spurt: Hvað um fólk sem ferðast á eigin vegum? Hvað um fólk sem notar bílaleigur og fer á þessa staði með þeim hætti? Þeirri gagnrýni er hægt að svara á þann veg að það fólk greiðir til samfélagsins í gegnum virðisaukaskatt og eldsneytisgjöld. Þá hafa hinir sömu sagt að það geri fyrirtæki sem fénýti þessa ferðamannastaði líka. En því má svara að þrátt fyrir að sjávarútvegurinn borgi að sjálfsögðu virðisaukaskatt og eldsneytisgjöld þá greiðir hann engu að síður fyrir aðgang að auðlindinni.

Mörgum finnst kannski ekki nógu mikið greitt fyrir þann aðgang en engu að síður er um gjald að ræða. Það er alveg í samræmi við þá hugsun sem hér er verið að leggja til að fyrirtæki sem beinlínis græða á því að selja fólki aðgang að tilteknum ferðamannastöðum geti, í gegnum farmiðann og gjaldið sem það kostar að taka þátt í ferðinni, látið ferðamanninn greiða þessa uppbyggingu. Það er að mínu mati sanngjörn leið og ég held að hún gæti skilað nægilegum tekjum til að standa straum af því verkefni sem hér um ræðir til lengri tíma. Það er ekki nóg að standa straum af uppbyggingu. Meðal þess sem menn hafa séð á Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er að það skortir svolítið á að menn séu að hugsa þessa hluti til lengri tíma, að það sé verið að gera áætlanir um viðhald. Í sumum tilfellum þarf einhvers konar starfskraft, vöktun, eftirlit eða annað slíkt og það þarf að standa straum af því. Það kostar peninga og það þarf að skaffa þá peninga.

Stór hluti af frumvarpinu um náttúrupassann fól í sér að þar var leitað leiða til að ná í fjármagn til að standa straum af þeirri uppbyggingu sem þarf að fara fram. Hér er verið að gera það með mjög einföldum hætti. Einhverjir kynnu að segja að þessi leið gæti kæft í fæðingu nýja ferðamanna- eða áfangastaði sem menn mundu kynna til sögunnar og væru kannski ekki alveg með þann ferðamannastraum að það gæti staðið undir slíkri gjaldtöku. Þá er því til að svara að það er í verkahring heimamanna, sveitarfélaganna sjálfra, að ákveða hvort hægt sé að leggja slíkt gjald á, hvort ástæða sé til að gera það, hvort staðirnir séu óöruggir, hvort þeir liggi undir skemmdum o.s.frv. Menn gætu auðvitað gert einhvers konar útfærslu sem fæli í sér að með hækkandi fjölda ferðamanna hækkaði gjaldið eða þá að það lækkaði eftir tiltekinn tíma þegar búið væri að standa straum af uppbyggingunni sem nauðsynleg væri.

Ég held að þetta sé mjög góð og einföld leið til að leysa vandamál sem blasir við samfélagi okkar og er mikið í umræðunni um þessar mundir. Ég vona að þetta mál muni fara hratt og örugglega til nefndar og til umsagnar og að við getum síðan unnið það áfram á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar.