145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta mál svo ég skilji það til hlítar af því að ég er ekki alveg viss um að ég geri það. Hv. þingmaður talar um að birta allar reglugerðir uppfærðar, ef ég skil hann rétt, annars vegar í Lögbirtingablaðinu, eða hvað? Eða bara á vef?

Ég átta mig ekki alveg á því hvað það er sem við sjáum ekki. Ef við erum með frumvarp fyrir framan okkur og í frumvarpinu er vísað í tilteknar reglugerðir eða heimildir á netinu sem settar hafa verið og maður smellir á þær, þá kemur einhver reglugerð. Erum við að tala um að það sé ekki uppfært reglubundið, eða erum við að tala um einhverjar aðrar reglugerðir sem settar eru vegna þess að lög eru sett? Svo eru settar sjálfstæðar reglugerðir og það eru þær sem ekki eru aðgengilegar eða eru ekki uppfærðar, eða hvað? Þetta hringlar aðeins í höfðinu á mér, svo ég játi það bara, og væri ágætt að þingmaðurinn reyndi að útskýra þetta svolítið fyrir mér.

Ég er svo sannarlega hlynnt því að við reynum að gera allar þessar upplýsingar eins aðgengilegar og við getum. Við höfum aðeins rætt um það að þegar maður leitar í einhverju tilteknu máli geti maður ekki slegið inn einhver númer, heldur er það töluverð handavinna ef maður ætlar að fara í gegnum mörg frumvörp eða bara í gegnum eitt frumvarp og ef það er stórt og viðamikið getur það verið svona svolítill handleggur. Gæti hv. þingmaður útskýrt þetta betur fyrir mér?