145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það birti aðeins yfir núna. Ég áttaði mig sem sagt á þessu. Markmiðið er að þegar við flettum upp og skoðum sjáum við ekki einungis þær breytingar sem gerðar hafa verið eða einhverja töluliði og eitthvað slíkt, heldur birtist þetta í heild sinni, eins og hv. þingmaður sagði, sú reglugerð sem í gildi er á þeim tíma. Það er afar mikilvægt að hún liggi þá öll undir en ekki bara hluti hennar, ekki bara breytingarnar. Ég játa að ég hafði ekki kveikt á því að svona væri þetta, en svo þegar maður fer að hugsa um það og fer að fletta upp í skjölum sér maður alltaf þessa töluliði sem eru þá breyttir hverju sinni.

Ég er sammála því að aðgengi fólks úti í samfélaginu þarf að vera gott. Sumir hafa áhuga á því að fylgjast með og jafnvel bara með einhverjum tilteknum málum, mér dettur í hug fiskveiðistjórnarkerfið, en það er alltaf verið að breyta og setja reglugerðir endalaust. Vissulega verða einhverjir vanir slíku og fara í gegnum það, en svo eru aðrir sem koma nýir inn og vilja byrja að fylgjast með. Þá getur það reynst svolítið snúið.

Þó að búið sé að reyna að bæta Alþingisvefinn og gera hann aðgengilegri heyrir maður að þeim sem ekki nota hann daglega finnst hann ekki sérlega aðgengilegur. Mér finnst því ágætt að fá útskýringar, það birti yfir hjá mér og ég áttaði mig á um hvað málið snýst. Ég velti fyrir mér: Er þetta kostnaðarauki fyrir ríkið? Á ekki að vera einfalt að setja breytingar inn í hvert sinn sem reglugerð er breytt? Þá fer hún í heild inn en ekki bara að hluta.