145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu um þetta frumvarp sem ég tel allra góðra gjalda vert. Það er auðvitað frumskilyrði í réttarríki að ekki aðeins löglærðir eða stjórnmálamenn sem setja lögin og reglurnar heldur allur almenningur eigi greiðan aðgang að reglunum eins og þær eru á hverjum tíma. Það er alveg rétt að það er þannig að þegar reglugerð hefur einu sinni verið sett getur hún tekið breytingum út í hið óendanlega um alla framtíð svo lengi sem stofnreglugerðin er í gildi og breytingareglugerðirnar eru að sjálfsögðu birtar með. Mig langar að nefna það hérna af því að mér fannst gæta örlítillar ósanngirni í máli hv. þingmanns þegar hann var með ádrátt um að það væri einhvers konar leyndarhyggja sem ylli því að þetta væri flókið. Það er ekki þannig. Gallinn við þetta er að það eru settar gríðarlega miklar reglugerðir, margar reglur sem sífellt er verið að breyta.

En ég vil vekja athygli hv. þingmanns á að í frumvarpinu hefði kannski átt að vísa í heimasíðu ráðuneytis en það er til heimasíða sem heitir reglugerd.is, sem er reglugerðasafn Íslands. Þar eru allar reglugerðirnar birtar og að sjálfsögðu líka hjá ráðuneytunum.

Mig langar líka að vekja athygli hv. þingmanns á því að lagasafnið á internetinu er ekki heldur uppfært reglulega. Lagasafnið er einungis uppfært tvisvar til þrisvar á ári, á haustin og vorin. ég hefði talið fullt tilefni til þess að viðra þann vanda líka, vegna þess að löggjöfin sem hefur verið uppfærð síðustu sex mánuði (Forseti hringir.) er ekki beinlínis þægilega aðgengileg almenningi í lagasafninu.