145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þigg ábendinguna með þökkum og get minnst á uppfærsluna á lögunum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem ég á sæti í. Ég veit ekki hvort það er verklagið eða hvað sem veldur því að þau eru uppfærð svona sjaldan, en það sannast enn og aftur að þegar maður vinnur mikið í ákveðnu umhverfi verður maður óhjákvæmilega á einhvern hátt samdauna því, eins og það er kallað, sem mér finnst reyndar ljótt orð yfir eitthvað sem er hluti af lífinu og tilverunni og hrjáir okkur öll á einn eða anna hátt. Eins og ég segi tek ég því þeirri ábendingu mjög vel.

Mig langar að minnast á annað þingmál sem ég hef lagt fram og reyndi mitt besta til að útskýra á mannamáli. Það fjallar um tölvutækt snið þingmála og felur í sér að slík vandamál mundu heyra sögunni til, þ.e. ef tölvutækt snið þingmála eða þingskjala yrði notað til þess að uppfæra lög t.d. samstundis. Slíkt ætti að vera sjálfvirkt og gæti verið sjálfvirkt. Það væri meira að segja hægt að birta breytingar áður en hlutir yrðu að lögum. Það væri æskilegast að mínu mati. Sem dæmi má nefna að ef einhver legði fram breytingartillögu á frumvarpi væri strax hægt að sjá hvernig það liti út og enn fremur hægt að sjá upprunalegu lögin sem það frumvarp væri hugsanlega að breyta í uppfærðri mynd, bæði samkvæmt frumvarpinu og samkvæmt breytingartillögunni.

Þetta grunar mig að sé flóknara að gera þegar kemur að reglugerðum. En það er þá eitt af þeim atriðum sem ég vænti þess að verði skoðuð ágætlega í nefnd. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir umræðuna og ábendingarnar.