145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

sveitarstjórnarlög.

296. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Breyting þessi varðar 1. mgr. 11. gr. laganna sem tekur til fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Frumvarpið miðar í stuttu máli að því að afnema skyldu Reykjavíkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Í 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um fjölda sveitarstjórnarmanna í sveitarfélögum og í 4. tölulið málsgreinarinnar segir að þar sem íbúar séu 50.000–99.999 skuli sveitarstjórnarmenn vera 15 hið fæsta en 23 hið flesta. Í 5. tölulið segir svo að þar sem íbúar séu 100.000 eða fleiri skuli sveitarstjórnarmenn vera „23–31 aðalmenn“, eins og það er orðað í lögunum. Augljóst er að núna og um fyrirsjáanlega framtíð er 5. tölulið ætlað að vera sérstakt ákvæði um fjölda sveitarstjórnarmanna í Reykjavík. Samkvæmt því munu allt að 31 aðalmenn geta setið í borgarstjórn Reykjavíkur í senn.

Í dag eru borgarfulltrúar í Reykjavík 15 og hafa reyndar aldrei verið fleiri, að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978–1982 var ákveðið að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 en það var afturkallað strax á næsta kjörtímabili þegar þáverandi borgarstjórn ákvað að fækka þeim aftur í 15. Síðan hefur ekki þótt ástæða til að fjölga þeim aftur.

Að mínu mati er engin ástæða til að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til slíkrar fjölgunar. Þess vegna er lagt til að heimilt verði að borgarfulltrúarnir verði áfram 15. Með breytingunni sem felst í þessu frumvarpi er einnig lagt til að hámarksfjöldi borgarfulltrúanna verði færður niður í 23 en eins og rakið var hefur borgarstjórn aðeins einu sinni ákveðið að fjölga borgarfulltrúum svo þeir yrðu fleiri en 15. Sú fjölgun var dregin strax til baka. Engin ástæða er að mínu mati til að ganga svo langt í lögum að í borgarstjórn geti setið allt að 31 aðalmenn. Mér að vitandi hefur Reykjavíkurborg ekki óskað eftir slíkri lagaheimild.

Tilefni frumvarpsins er af minni hálfu og okkar flutningsmanna einkum og sér í lagi sjálfstæði sveitarfélaganna. Frumvarpið byggist á því sjónarmiði að það skuli vera meginatriði í stjórnskipulagi sveitarfélaga að með stjórn þeirra hvers um sig fari sveitarstjórn sem kjörin er lýðræðislegri kosningu af kosningarbærum íbúum hvers sveitarfélags. Það er sveitarstjórnin sem fer með stjórn sveitarfélagsins og ber um leið ábyrgð á starfsemi þess. Þetta er í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga og reyndar líka ákvæði Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga. Ég tel eðlilegast að um fjölda sveitarstjórnarmanna verði vélað á sveitarstjórnarstiginu sjálfu þótt löggjafinn geri vissulega ráð fyrir því eins og vera ber að til staðar séu sveitarstjórnarmenn, en þá á ákvörðun um fjölda þeirra að vera hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett.

Nú um stundir á Reykjavíkurborg við mikinn fjárhagsvanda að etja, það er öllum mönnum ljóst, og hefur reyndar gert í mörg ár. Samkvæmt fréttum er yfir 13 milljarða króna halli bara árið 2015 á rekstri borgarinnar. Skatttekjur duga alls ekki fyrir rekstri borgarinnar. Þannig hefur þetta verið frá árinu 2010 með einni undantekningu eftir því sem ég hef fundið. Reykjavíkurborg er með hæsta útsvar sem lög heimila þannig að ekki verða auknar tekjur teknar í formi útsvars. Nýlega kynnti meiri hluti borgarstjórnar hagræðingaraðgerðir í Reykjavíkurborg sem námu þó ekki nema 1,8 milljörðum, sem er auðvitað ekki upp í nös á ketti, svo ég leyfi mér að segja, í samanburði við þann gríðarlega halla sem er á rekstri borgarinnar sem ég nefndi áðan. Það stefnir í að milli áranna 2014 og 2016 hafi skuldir borgarsjóðs hækkað um 30%. Í þessu ljósi meðal annars finnst mér algerlega ófært að löggjafinn leggi þær byrðar og kvaðir á Reykjavíkurborg að fjölga borgarfulltrúum, starfandi kjörnum fulltrúum, úr 15 í allt að 31.

Ég hef auðvitað ekki frekar en aðrir hv. þingmenn forsendur til að meta hvaða fyrirkomulag hentar best við rekstur borgarinnar hvað varðar málefni kjörinna fulltrúa. Það kann vel að vera að það henti að fjölga borgarfulltrúum. Það kann vel að vera að það henti að fjölga þeim töluvert og hafa þá alla í hálfu starfi. Með því fengist ákveðinn tenging við atvinnulífið sem ég held að borgin þurfi sárlega á að halda. Þess utan væri það kannski tilefni og tækifæri til að fjölga sjónarmiðum og fólki með mismunandi bakgrunn í borgarstjórn. Það kann líka að vera fjárhagslega hagkvæmt að fjölga þeim ef það er gert með þessum hætti. Ég skal ekkert segja um það. Ég veit bara að ég hef engar forsendur til að meta það og löggjafinn hefur það ekki beint heldur. Þess vegna finnst mér afar óeðlilegt að löggjafinn bindi hendur Reykjavíkurborgar með þessum hætti.

Það þarf að taka það sérstaklega fram að ákvæðið sem geirneglir svona fjölda sveitarstjórnarmanna í dag kom nýtt inn í sveitarstjórnarlög með lögunum árið 2011. Fram að þeim tíma var Reykjavíkurborg skylt að hafa borgarfulltrúa 15–27. Það liggur fyrir að þessi breyting sem kemur kannski til framkvæmda við næstu sveitarstjórnarkosningar gerbreytir lagalegri stöðu hvað þetta varðar.

Ég vil að lokum árétta að hér er ekki sérstaklega verið að leggjast gegn fjölgun borgarfulltrúa ef borgarfulltrúar sjálfir meta það nauðsynlegt, heppilegt og hagkvæmt, en ég tel að ákvörðun um slíkt verði að koma frá borgarfulltrúunum sjálfum en ekki löggjafanum. Ég vænti þess að samstaða sé um þetta meðal þingmanna, einkum og sér í lagi í ljósi þeirrar kröfu sem mjög gjarnan er hér höfð uppi um sjálfstæði sveitarfélaganna. Ég á ekki von á öðru en að þetta mál fái farsæla umfjöllun í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem ég legg til að fái málið til umfjöllunar.