145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á bleika skattinum svokallaða. Hann er þannig að sama vara, nákvæmlega sama vara, kostar mjög oft mun meira ef hún er ætluð og markaðssett fyrir konur en ef hún er ætluð karlmönnum. Það sem er ætlað konum kostar heilt yfir um 7% meira en oft er munurinn mun meiri. Þetta er það sem framleiðendur og sölumenn setja á, sem er kallaður skattur en eru auðvitað álögur þessara aðila á það sem konur kaupa frekar en karlar.

Þetta er fjöldinn allur af vörum. Þetta eru barnavörur, leikföng og fatnaður fyrir börn; það sem er ætlað fyrir stelpur er dýrara en það sem er ætlað fyrir drengi. Svo eru líka vörur sem eru ætlaðar fyrir okkur fullorðna fólkið. Þá er ég ekki að tala um að konur velji dýrari merki en karlar, ég er bara að tala um nákvæmlega sömu vöruna sem framleiðendur hafa ákveðið að markaðssetja á hærra verði fyrir konur en karla og rukka þá konurnar um meira.

Neytendavitundin er auðvitað mikilvæg. Einhver gæti sagt að neytendur ættu ekki að láta bjóða sér þetta, konur ættu ekki að láta bjóða sér að borga hærra verð. En eins og við vitum þá er oft ekkert val í því. Það er ekki bara hægt að setja ábyrgðina á konur sem neytendur þarna, því að leikreglurnar sjálfar eru bjagaðar og fólki þessi munur kannski ókunnur.

Tvennt þarf að koma til til þess að breyta þessu. Við þurfum að auka neytendavitund, svo þurfum við raunverulegar aðgerðir stjórnvalda. Við þurfum verðlagseftirlit og við þurfum neytendavernd (Forseti hringir.) og við þurfum að koma þessum upplýsingum til neytenda.


Efnisorð er vísa í ræðuna