145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur forklúðrað málefnum ferðamanna en það er ekki að spyrja að verkgleði hennar þegar kemur að lögum um rammaáætlun. Nú kemur í ljós að ríkisstjórnin hefur í miðjum leik ákveðið að breyta starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Hún hóf í upphafi þessa kjörtímabils að vinna að flokkun sérstakra virkjunarkosta sem nutu sérstakrar aðdáunar ríkisstjórnarinnar. Síðan byrjaði hún í mars á síðasta ári að flokka 28 virkjunarkosti og er væntanlega komin vel á veg með þá vinnu sína. En þá ber svo við að ríkisstjórnin vill, að beiðni Landsvirkjunar, breyta reglunum á þann veg að hægt sé að sækja um lítið breytta virkjunarkosti sem búið er að afgreiða í verndarflokk rammaáætlunar.

Þetta er svo greinilega ekki í anda laganna um rammaáætlun og er siðlaust með öllu og við það verður ekki unað. Þetta er í senn ólöglegt og siðlaust. Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir málaflokki náttúruverndar. Það á ekki að vera hlutverk virkjunarfyrirtækja að ákveða eftir hvaða leikreglum virkjunarkostir eru vegnir og metnir. Það er hlutverk þjóðarinnar og fulltrúa hennar að ákveða það. Það er gert með reglum sem settar eru hér á Alþingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna