145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú hafa tæplega 78 þúsund manns krafist með undirskrift sinni aukins fjármagns til heilbrigðiskerfisins. Stjórnvöld hljóta að bregðast við því kalli. En hvert á að beina fjármagninu? Hvaða þætti heilbrigðiskerfisins eigum við að styrkja? Hvernig vilja þeir sem skrifa undir í nafni endurreisnar sjá endurreist heilbrigðiskerfi?

Ég er ekki hrifin af því í hvaða átt heilbrigðiskerfið hefur þróast á sumum sviðum. Á undanförnum árum hefur oft komið fram í könnunum að við Íslendingar viljum að heilbrigðiskerfi okkar sé rekið fyrir opinbert fé og að mestu í opinberum stofnunum. Landlæknir hefur bent á að meiri hluti lækna sem starfa á Landspítalanum starfi einnig á einkastofum úti í bæ og að það samkrull sé orðið það mikið að það skaði Landspítalann.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir skrifaði á dögunum ágætan pistil í Stundina og bendir þar á að markmið um að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga og að Landspítalinn verði háskólasjúkrahús, miðstöð sérhæfðrar læknisþjónustu, séu brýnir almannahagsmunir. Þróun sérgreinalæknaþjónustu utan sjúkrahúsa hafi hins vegar grafið undan þessum markmiðum. Einkarekin heilbrigðisþjónusta hefur aukist á kostnað opinberrar þjónustu. Einkarekin sérgreinalæknaþjónusta utan sjúkrahúsa hefur haft betur þegar kemur að opinberu fjármagni. Samningar við sérgreinalækna gera ráð fyrir magnaukningu og fjölgun aldraðra er tekin þar til greina á meðan Landspítalinn fær ekki fjármagn til að mæta fjölgun sjúklinga. Og nú leita heimilislæknar út með stuðningi stjórnvalda.

Ég vil því spyrja aftur, herra forseti: Hvert ætlum við að beina fjármagninu og hvernig viljum við og fólkið í landinu sjá heilbrigðiskerfið þróast?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna