145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka heils hugar undir það sem hæstv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði áðan um kynbundið ofbeldi gagnvart feðrum sem ekki fá að hitta börnin sín. Ég tek heils hugar undir það.

Ég ætla að ræða ræðu hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur frá því í gær þar sem hún ræddi í störfum þingsins og í sjónvarpsviðtali um hættulega ferðamannastaði. Ég vil koma fram leiðréttingu varðandi það. Ég vil ekki gera lítið úr þeirri hættu sem ferðamönnum stafar af náttúrunni. Það er ekki nóg að við höldum vöku okkar í þeim málum, heldur verðum við að láta verkin tala og ég vil klárlega stefna þangað í samstarfi við ferðaþjónustuna og sveitarfélög í landinu.

Mig langar að vitna í ræðu hæstv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Þar segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ég vil taka upp þráðinn í dag um öryggismál ferðamanna á Íslandi. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég geri það að umtalsefni hér. […] Hættan í Reynisfjöru hefur lengi verið öllum ljós. Þar hafa sex manneskjur dáið á fáum árum.“

Sem betur hefur þingmaðurinn ekki haft réttar upplýsingar um málið, en tveir ferðamenn hafa látið lífið í Reynisfjöru á umliðnum árum. Það er að sjálfsögðu tveimur of mikið. Fyrir níu árum lést kona í fjörunni þegar hún fór of nærri sjónum og fyrir tveimur vikum dó erlendur ferðamaður þrátt fyrir góðar aðstæður og er það slys til rannsóknar. Frá árinu 1942 hefur enginn látist í Reynisfjöru fyrir utan þessi tvö hörmulegu slys á síðustu árum.

Ég bendi líka á að rétt vestan við Reynisfjöru er lífhöfn íbúa og ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum, Landeyjahöfn. Sú höfn er lokuð mánuðum saman á hverju ári og ekkert er gert til að leita að rót vandans. Á meðan sitja ferðaþjónustuaðilar í Vestmannaeyjum með tóm hótel, rútur og veitingastaði.

Virðulegi forseti. Það er stóralvarlegt mál að Eyjamenn geti ekki setið við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að því að flytja ferðamenn til Eyja með stystri mögulegu siglingu frá Landeyjahöfn sem verður umsvifalaust að endurmeta og bæta svo nýtt skip sem ákall er um geti nýtt sér nýja höfn allt árið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna