145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í gær ræddi ég hér meðal annars um Borgunarmálið og Landsbankamálið. Ég sé að fjármálaráðherra er svolítið argur á fésbókarsíðu sinni í dag, m.a. væntanlega vegna ummæla sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa látið falla um þau mál og ýmis önnur. Tilraun til að kæfa málið tel ég vera í formi þess að Landsbankinn skilaði skýrslu til Bankasýslunnar upp á 120 blaðsíður sem barst okkur fjárlaganefndarmönnum seint í gær. Ég velti fyrir mér hver eigi að leggja það á sig að lesa hana en líklegast verður maður að gera það til að komast til botns í þessu leiðindamáli.

Það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni hér í dag er holan vestur á Melum, holan þar sem við ætlum að reisa Hús íslenskra fræða. Guðrún Nordal hefur verið ötul við að halda því á lofti að við förum vel með þjóðararfinn okkar, höfum hann til sýnis og aðgengilegan bæði okkur Íslendingum og auðvitað ferðamönnum þar sem hún telur í ljósi aukins ferðamannastraums að til dæmis væri hægt að taka töluverða fjármuni þar inn og beina fólki í það sem tilheyrir grunninum okkar.

Á sama tíma vekur athygli að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa meiri áhuga á að eyða væntanlega milljörðum, a.m.k. eru farnar einar 500 milljónir, í einhvern grjótgarð rétt hjá okkur en að leggja áherslu á að koma þessu mikilvæga verkefni af stað. Við getum gert það með ýmsum hætti, eins og við vinstri græn erum óþreytandi við að minna á. Tekjuöflunarmöguleikarnir eru gríðarlegir, m.a. í auðlindum okkar. Forgangsröðunin virðist vera ljós hjá hæstv. ráðherra. Hann er að vernda hér gamalt í staðinn fyrir að byggja upp nýtt, hvort sem það er Hús íslenskra fræða, Landspítali (Forseti hringir.) eða hvað annað það er. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það eru forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar.


Efnisorð er vísa í ræðuna