145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

um fundarstjórn.

[15:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil bara koma að tveimur örstuttum tillögum. Önnur er sú að dagskrárliðurinn störf þingsins verði lengdur um að minnsta kosti korter. Að mínu mati væri fínt að lengja hann um hálftíma til að fólk geti komist að og sagt það sem það þarf að segja. Hvað varðar liðinn fundarstjórn forseta er hann, eins og þingmenn vita, einnig notaður til að bera af sér sakir og það kemur fyrir að í störfum þingsins segir einn hv. þingmaður eitthvað um ummæli einhvers annars hv. þingmanns sem sá hv. þingmaður getur viljað eiga kost á að leiðrétta strax eða í það minnsta koma einhverju áleiðis. Því þætti mér eðlilegra ef það væri heimilt að óska eftir innleggi um fundarstjórn forseta á milli ræðna í störfum þingsins.

Að því sögðu held ég að vandinn væri leystur með því einfaldlega að lengja dagskrárliðinn.