145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[15:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er allnokkuð síðan ég óskaði eftir þessari sérstöku umræðu. Tilefnið var umræða um fjárlög og ríkisfjármálaáætlun síðasta haust. Þó að umræðan hafi einhverra hluta vegna ekki farið fram hef ég haldið þessari beiðni inni vegna þess að mér sýnist tilefni til umræðu um þörf á fjárfestingum í innviðum síst hafa minnkað. Það blasa við dæmi um hversu alvarleg staðan er orðin og hversu mikil þörfin er á að blása til opinberra fjárfestinga, bæði í viðhaldi og uppbyggingu á grunninnviðum samfélagsins.

Eins og ég segi var kveikjan að þessu fjárlögin. Ég bjóst við að ég fengi að sjá í áætlunum sem núna eru kynntar á þessum uppgangstímum að gefið yrði í varðandi fjárfestingar í innviðum. Núna fara uppgangstímar í hönd eftir mjög erfitt samdráttarskeið eftir hrun þar sem nauðsynlega þurfti, held ég að megi óhikað halda fram, að draga saman seglin í fjárfestingum. Hvort sem það var skynsamlegt eða ekki held ég að blasað hafi við að okkur var nauðugur sá kostur en það urðu mér vonbrigði að sjá að í raun er áætlað að halda aðeins í horfinu á komandi árum. Þetta kemur fram í ríkisfjármálaáætlun til 2018. Mér finnst þetta mikið áhyggjuefni. Þótt ekki væri nema bara út af fólksfjölgun, og okkur hefur líka orðið tíðrætt hér í þessum sal um fjölgun ferðamanna, bara af þessum tveimur orsökum er alveg augljóst að það þarf að gefa í hvað varðar fjárfestingar í innviðum.

Ýmsir mælikvarðar eru notaðir í þessu, t.d. er talað um að það sé eðlilegt að þróað samfélag verji 4–5% af vergri landsframleiðslu til opinberra fjárfestinga í innviðum. Þetta hlutfall hefur á undanförnum árum verið í kringum 2% sem þýðir að þörfin safnast upp. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn benti á það fyrir ári að opinber fjárfesting hefði dregist saman um 47% á föstu verðlagi frá árinu 2008. Samtök iðnaðarins hafa bent á það líka, m.a. í umsögn um fjárlögin, að uppsöfnuð þörf á margvíslegum opinberum fjárfestingum sé að minnsta kosti 100 milljarðar. Síðast í morgun var í útvarpinu ágætisviðtal við hagfræðing Samtaka iðnaðarins, Bjarna Má Gylfason, þar sem hann áætlar að uppsöfnuð þörf á fjárfestingum í vegakerfinu sé 60–70 milljarðar.

Maður þarf ekki að vera neinn sérstakur vísindamaður til að sjá þetta. Það var dregið mjög mikið saman í fjárfestingum eftir hrun. Það var 150–200 milljarða halli á ríkissjóði út af þeim áföllum sem höfðu orðið. Við erum einfaldlega að verða vitni að því að vegir eru að versna. Það þarf uppbyggingu, þetta er farið að ógna öryggi ferðamanna og bara tímaspursmál hvenær stórslys verða.

Okkur hefur líka orðið tíðrætt um heilbrigðiskerfið, þetta blasir við þar. Þar eru húsin einfaldlega að mygla. Það er ekkert annað en birtingarmynd þess að þeim er ekki haldið við. Það er ekki byggt upp. Sem betur fer stendur eitthvað til í þeim efnum en þetta er birtingarmynd þess að eignir samfélagsins, opinberar eignir, eru að rýrna. Það kemur raunar fram í forsendum fjárlaganna að það er verið að fjárfesta minna en sem nemur afskriftum sem þýðir að eignirnar munu rýrna og samfélagið versnar.

Í heilbrigðiskerfinu styður líka samanburður við önnur lönd þessa greiningu. Við erum í næstneðsta sæti þegar kemur að fjárfestingum í innviðum í heilbrigðisþjónustu þegar litið er til OECD-ríkjanna samkvæmt tölum frá 2013 og ég held að það hafi lítið breyst. Aðeins Mexíkó er neðar.

Kveikja að þessari umræðu er þessi tilfinning sem og tölurnar. Maður sér alls staðar að það vantar fjármuni í nauðsynlega uppbyggingu á innviðum, húsakosti, vegum, tækjabúnaði og þar fram eftir götunum. Maður spyr sig auðvitað: (Forseti hringir.) Hver er áætlun ríkisstjórnarinnar í þessu? Horfist ríkisstjórnin í augu við þessa þörf? Hvernig ætlar hún að takast á við hana? Hefur hæstv. fjármálaráðherra áhyggjur af þessu? Ég hef áhyggjur.