145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[15:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Opinber fjárfesting hefur dregist mjög mikið saman á undanförnum árum í kjölfar þess áfalls sem við urðum fyrir hér þegar bankarnir féllu. Þá má segja að birst hafi ákveðin forgangsröðun í því að skera svo mikið niður sem gert var í opinberri fjárfestingu og alveg augljóst að þar voru menn að reyna að hlífa tilfærslukerfunum okkar, almannatryggingakerfinu, og vildu síður draga úr samneyslunni, hinum sameiginlega rekstri ríkisins, vegna þess að augljóst var að grípa þurfti til hagræðingaraðgerða einhvers staðar. Það birtist okkur mjög harkalega í miklum samdrætti í opinberri fjárfestingu.

Mér fannst tölurnar sem hv. þingmaður nefndi um að það væri að jafnaði ágætt að hafa fjárfestingu hins opinbera í kringum 4–5% býsna háar en ef við horfum bara til þess hvað hefur verið að gerast hjá ríkinu í gegnum tíðina hefur fjárfestingin frá um það bil 1998 verið um 2% af landsframleiðslu að jafnaði. Við höfum verið mun lægri á undanförnum árum, rétt í 1%. Á undanförnum árum höfum við þó mjakað okkur aðeins upp og gerum ráð fyrir 1,3% á þessu ári.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að til lengri tíma er það allt of lítil opinber fjárfesting. Hér stöndum við frammi fyrir spurningunni: Er svigrúm til að stórauka þessa fjárfestingu? Hvert 0,1% í aukningu mundi þýða um 2,3–2,4 milljarða í aukna opinbera fjárfestingu. 1% upp þýðir 23 milljarða á ári í aukna fjárfestingu. Er svigrúm fyrir það?

Það sem opinberar tölur segja okkur í augnablikinu er að það sé mjög lítið svigrúm fyrir stóraukna opinbera fjárfestingu. Að minnsta kosti þyrfti þá með einhverjum hætti að búa það svigrúm til. Þetta er vegna þess að einkageirinn hefur tekið mjög við sér og nálgast langtímameðaltal í fjárfestingu. Við þekkjum einstaka stór verkefni og þann uppgang sem er almennt í atvinnulífinu. Það mælist talsvert aukin fjárfesting einkageirans, jafnvel svo að við stefnum í að fara yfir langtímameðaltal. Það dregur aðeins úr því svigrúmi sem hið opinbera hefur á sama tíma.

Ef við horfum á aðra hagvísa, eins og atvinnuleysi, og hvort það er einhver slaki í hagkerfinu yfir höfuð sjáum við að hér er nánast ekkert atvinnuleysi og slakinn er horfinn. Reyndar hefur Seðlabankinn að undanförnu frekar hækkað vexti út af ástandinu í hagkerfinu. Allt eru þetta merki um að það sé lítið svigrúm fyrir ríkið til að taka öllu meira til sín.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að við stöndum frammi fyrir mjög mörgum brýnum verkefnum. Góðu fréttirnar eru þær að þau verkefni sem eru í gangi í dag eru sum hver að klárast. Þannig sjáum við fram á að það sé að myndast 5–15 milljarða svigrúm á komandi árum í ný verkefni þar sem eldri verkefni eru að klárast, samanber Norðfjarðargöngin og önnur slík mjög fjárfrek verkefni. Það sem við erum með fyrir framan okkur er ekki bara bygging nýs Landspítala eða viðbyggingar við hann heldur mjög miklar framkvæmdir í vegakerfinu. Þar stöndum við frammi fyrir risavöxnu verkefni í sjálfu sér. Ég held að við höfum sett of lítið í viðhald á undanförnum árum. Við höfum fyrir framan okkur verkefni eins og nýja ferju fyrir Vestmannaeyjar. Landhelgisgæslan kallar eftir þyrlum. Ýmsar opinberar byggingar hafa beðið þess að komast á framkvæmdastig, hvort sem við tölum um þjóðskjalasafn sem var svolítið í umræðunni í tengslum við fjárlögin í vetur eða Hús íslenskra fræða, nýja skrifstofubyggingu fyrir Alþingi, hafnarframkvæmdir, þjóðgarðinn á Þingvöllum o.s.frv.

Við stöndum frammi fyrir mjög krefjandi verkefni sem er að skapa þetta svigrúm. Að hluta til er þolinmæðisverk að bíða eftir að fjármagn losni úr verkefnum sem eru til staðar. Að hluta til þurfum við að haga seglum eftir vindi og gæta þess að vilji okkar til að gera betur á fjárfestingarsviðinu sé ekki úr takti við það sem er að gerast almennt í efnahagsmálum. Þetta svigrúm væri auðvitað hægt að skapa með því að draga saman í rekstri ríkisins en ég sé ekki mikla samstöðu um það á þinginu að draga reksturinn mjög saman þannig að þetta svigrúm verði til staðar. Það er dálítið vandlifað þegar menn vilja hækka launin um (Forseti hringir.) 7% á ári eins og við höfum verið að gera, (ÖS: Hvað með …?) sjá atvinnulífið taka við sér og skapa ný störf og stórauka fjárfestingarstigið á sama tíma.

Það er mjög brýnt mál sem hér er tekið upp en við munum þurfa að sýna þolinmæði til að geta tekið verulega til hendinni.