145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hér er um að gera að tala í lausnum, finna lausnir og finna tækifæri sem okkur eru boðin í þessari umræðu. Ég eins og fleiri legg áherslu á að einskiptisaðgerðir við sölu ríkiseigna verði notaðar til þess að borga niður skuldir ríkisins því ríkið eyðir himinháum upphæðum í vaxtagreiðslur.

En mig langar af þessu tilefni að viðra hér tillögu sem kom fram á síðasta kjörtímabili og það er tillaga um einskiptisaðgerð í þá veru að ríkið innheimti skatttekjur sínar upp á fleiri tugi milljarða sem það á inni í séreignarsjóðum landsmanna. Með þessum hætti væri auðvelt að fara á fjórum til fimm árum í þá innviðauppbyggingu sem við þurfum svo sannarlega á að halda, reisa nýjan Landspítala, laga vegakerfið, útrýma einbreiðum brúm, laga hafnir, ljósleiðaravæða landið allt, styrkja Landhelgisgæsluna, byggja upp ferðamannastaði og hlúa að lögreglunni.

Virðulegi forseti. Þetta er tillaga sem var viðruð á síðasta kjörtímabili. Þetta er lausnin. Ef þessi leið verður farin þá verða innviðir landsins orðnir sterkir og styrkir eftir kannski fimm til sjö eða tíu ár. Þá eru tækifæri komandi kynslóða svo langtum betri og tækifæri stjórnmálanna til framtíðar í þá veru að lækka skatta, lækka jafnvel virðisaukaskatt enn frekar og hlúa að kynslóðinni sem byggja á landið til framtíðar sem kemur til með að borga lífeyrisgreiðslur ellilífeyrisþega og örorkubætur til framtíðar, því í þeim hópum er vissulega að fjölga með (Forseti hringir.) breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Ég bið þingmenn alla að skoða þessa tillögu með jákvæðum huga, því þetta er lausnin (Forseti hringir.) sem við þurfum á að halda.