145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Vinsælasti þátturinn í sjónvarpi um þessar mundir, Ófærð, fjallar um spillingu á æðstu stöðum og lélegar samgöngur. Hann er auðvitað vinsæll vegna þess að hann endurspeglar íslenskan veruleika vel. Svona er Ísland í dag.

Ein árangursríkasta aðferðin við að tryggja öryggi ferðamanna er almennilegar samgöngur. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir í ræðu sinni að stór verkefni séu í gangi í vegagerð. En eftir hvaða áætlun er unnið þar? Hefur einhver samgönguáætlun verið afgreidd á kjörtímabilinu af núverandi þingmeirihluta? Það hafa verið gerðar tvær eða þrjár tilraunir til þess að leggja fram samgönguáætlun en þær hafa allar runnið út í sandinn. Það er engin áætlun í gangi. Engin verkstjórn eða verkstýring eða áætlun sem unnið er eftir í þessum efnum.

Við erum auðvitað að tala um afmarkaðan hluta af þeim fjárfestingarvanda sem blasir við í hagstjórninni á Íslandi og í stjórn landsins. Við búum við það, það er ákveðið lúxusvandamál, að fá hingað mikið af ferðamönnum. En við erum ekki að taka almennilega á því með innviðauppbyggingu.

Úti í heimi er tekið öðruvísi á málum. Stjórnvöld á Ítalíu ætla að fækka ferðamönnum um eina milljón sem koma til fimm fiskimannaþorpa á Ítalíu og draga úr álagi og aðgangi þar þangað til að fundin verður fullnægjandi lausn á málinu.

Á Íslandi er nýtt markaðsátak kynnt til þess að laða enn fleiri ferðamenn til landsins. Hæstv. iðnaðarráðherra boðar svo í morgun, þegar hún er spurð hvað hún ætli að gera í öryggismálum ferðamanna, að nýjar tillögur í öryggismálum á ferðamannastöðum verði kynntar í byrjun næsta mánaðar og þá verði verkin látin tala. (Forseti hringir.)

Það er ánægjulegt að núna þegar hillir undir lok kjörtímabilsins hafi hæstv. ríkisstjórn fundið þessa setningu: Þá verði verkin látin tala. Til hamingju með það.