145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla.

68. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir innlegg hans hér og fagna því. Hv. þingmaður á sæti í utanríkismálanefnd. Ég vonast til þess að nefndin … (ÖS: Ég ræð engu þar.)— Ræður engu þar, segir hv. þingmaður, en ég vonast þó til þess að nefndin muni taka þetta mál til umfjöllunar, að það fái bara ekki að deyja drottni sínum í nefndinni, eins og stundum gerist með þingmannamál.

Ég nefni það líka, tengt því sem hv. þingmaður sagði, að hættan við þessi vopn er líka sú að það er til dæmis mun flóknara mál að framleiða kjarnorkusprengju og afla efnanna sem þarf til að framleiða kjarnorkusprengju en að framleiða þessi vopn. Þegar þessi tækni verður orðin fullþróuð mun í raun og veru verða tiltölulega lítið mál að framleiða sjálfvirkar vígvélar. Við gætum því hugsanlega verið að horfa upp á að það væru ekki bara stóru hernaðarveldin sem stæðu væntanlega fremst í þessari tækni, heldur gæti verið minna mál fyrir ýmsa aðra hópa — hv. þingmaður nefndi hér hryðjuverkasamtökin ISIS — að komast yfir slíka tækni. Það er líka áhyggjuefni, því að hún gæti orðið afar útbreidd ef ekki verður gripið til mjög markvissra ráðstafana sem fyrst.