145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla.

68. mál
[17:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka til máls í umræðu um þessa tillögu til þingsályktunar um stuðning Íslands við að koma á alþjóðlegu banni við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla, en ég er einmitt einn af meðflutningsmönnum tillögunnar.

Eins og rakið er í greinargerð höfum við séð á undanförnum árum að verið er að þróa ómannaðar sjálfvirkar og sjálfstýrðar vígvélar og verið að nýta sér tækni um gervigreind þannig að þær geti ráðist að fólki og drepið á grundvelli eigin ákvarðana án þess að mannleg hönd eða mannlegur heili komi þar nokkurs staðar nærri. Ég veit eiginlega ekki hvaða orð fá því lýst nógu sterkt hversu geigvænleg mér finnst sú þróun vera því að við höfum séð hvaða áhrif dráp og beiting dróna, sem þó er stýrt af mannlegri hendi og mannlegum heila, hefur haft í hernaði á undanförnum árum og það er nógu skelfilegt. Þess vegna finnst mér afar brýnt og afar mikilvægt að taka þátt í og standa að tillögu til þingsályktunar um þetta efni.

Það er talað um í greinargerðinni að þessi nýja tækni muni geta haft svo gagnger áhrif að hún leiði af sér nýtt vígbúnaðarkapphlaup ef ekkert verður að gert og að heimurinn standi hreinlega frammi fyrir gjörbyltingu í hernaðartækni. Tekið er sem dæmi þær breytingar sem urðu þegar menn tóku upp á því að nota púður til skotfæragerðar og svo um þróun kjarnorkusprengjunnar.

Það var aðeins komið inn á kjarnorkuvopn í bæði framsöguræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur og einnig í orðaskiptum milli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan. Mig langar í kjölfar þeirra orðaskipta að segja að við vitum það sem fylgjumst eitthvað með alþjóðamálum að það er gríðarlega mikil spenna í heiminum nú þegar og það er vígbúnaðarkapphlaup í gangi þegar kemur að þróun kjarnorkuvopna, sem þó eru miklu flóknari og dýrari og erfiðari vopn þegar kemur að framleiðslunni og auðvitað vopn sem virka á miklu stærri skala en sjálfvirkar vígvélar geta á nokkurn hátt unnið. En mér finnst hins vegar mjög mikilvægt í þessari umræðu að minna á að það er nú þegar unnið að því að þróa kjarnorkuvopn sem herveldin, kjarnorkuveldin, binda jafnvel vonir við að hægt sé að nota í einhvers konar strategískum hernaði. Ég held því að við þurfum að hafa allan vara á þegar kemur að þessum málum.

Það hefur viljað brenna við, sérstaklega þegar hernaðarsérfræðingar tala, að reynt er að nota tungutak sem lýsir engan veginn því sem raunverulega gerist í stríði. Þá er oft talað um hárnákvæmar árásir og skotmörk og eyðileggingin og dauðinn sem af hlýst verður stundum eins og einhvers konar hliðarverkun. Við höfum séð þetta gerast í fjölmörgum stríðum á undanförnum árum og áratugum og þá er kannski nærtækast að nefna fyrra Íraksstríðið. Í mínum huga er nærtækast að nefna það vegna þess að það er það stríð sem kemur fyrst upp í hugann. Þar sáum við fréttamyndir þar sem látið var að því liggja að verið væri að sprengja strategísk skotmörk með hárnákvæmum hætti.

Þessi mynd hefur náttúrlega eitthvað breyst að undanförnu, m.a. fyrir tilstuðlan samskiptamiðla þar sem fólk á jörðu niðri hefur sýnt myndir af því sem það upplifir og af því sem er að gerast. Þetta allt hefur verið nógu hræðilegt þótt sjálfvirkni vígvéla komi ekki í ofanálag. Að mínu mati er firringin næg nú þegar.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom í ræðu sinni inn á siðferðilegu hliðina sem tengist þessum málum, þ.e. hver það er sem ber ábyrgð ef það eru vélmenni sem heyja stríðin fyrir hönd einhverra aðila og svo þann freistnivanda sem það gæti leitt af sér, að þröskuldurinn fyrir því að fara í stríð verði lægri því að stríðsaðilinn þarf ekki að svara fyrir fall í eigin herbúðum heldur mun þetta bitna á saklausu fólki.

Það er því í mínum huga alveg ljóst að þó svo að einhverjir úrtölumenn vilji halda því fram að það sé tilgangslaust að streitast á móti tækninni þá verðum við að spyrna við fótum. Alþjóðasamfélagið verður að banna drápsvélar af þessu tagi því að ef ekki verður reynt að spyrna við fótunum er held ég alveg öruggt að tæki af þessu tagi munu líta dagsins ljós og þau munu verða notuð. Ég held að sagan hafi kennt okkur ef tækin eru til þá eru þau notuð í stríði. Þess vegna tel ég alveg einstaklega mikilvægt að herlaus þjóð eins og Ísland leggi sitt af mörkum í hinni alþjóðlegu baráttu ef hún er ekki hreinlega beinlínis leiðandi og tali máli friðar og afvopnunar og gegn vígbúnaði.

Ég vona því að þessi tillaga fái góða umfjöllun í utanríkismálanefnd og að við sitjum hér í þessum þingsal eftir nokkrar vikur og samþykkjum hana og leggjum þannig okkar að mörkum, með því að lýsa yfir stuðningi við að framleiðsla og beiting á sjálfstýrðum og sjálfvirkum vígvélum verði bönnuð á alþjóðavettvangi.