145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þingsköp Alþingis.

331. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, um það hvernig staðið er að kjöri forseta Alþingis. Ég held að þetta verði mjög til bóta ef frumvarpið nær í gegn. Það er alveg þess virði að fara örfáum orðum um það hvernig svona tillaga gæti litið út fyrir sitjandi virðulegan forseta. Þetta gæti virkað á einhverja virðulega forseta sem einhvers konar árás á störf þeirra en það er af og frá. Við vitum öll hvernig þetta er, ef við tölum bara íslensku og segjum frá hlutunum eins og þeir eru þá er þetta þannig á Íslandi að það er ríkisstjórnin sem ræður, hún ræður í krafti meiri hluta Alþingis, einfalds meiri hluta Alþingis. Virðulegur sitjandi forseti, og samkvæmt hefð, tilheyrir þeim meirihlutaflokkum, Sjálfstæðisflokki nánar tiltekið. Það er óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, alveg sama hversu vel innrættur, duglegur, yndislegur og frábær virðulegur forseti er að viðkomandi virðulegi forseti verði fyrir þrýstingi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það er mjög óeðlilegt í lýðræðissamfélagi. Það er mjög óeðlilegt og á ekki að vera þannig.

Það á að vera þannig að forseti þingsins sé forseti þingsins. Nú veit ég að það fer eflaust ekki vel í forseta þingsins almennt að svona sé talað um þetta, en það verður að hafa það. Við búum við þær aðstæður að þingið er veikt gagnvart ríkisstjórn og verður að bæta úr því. Það verður að bæta úr því með ýmsum leiðum og þar á meðal þessari. Þetta er mjög einföld og mjög sjálfsögð tillaga. Ég álít að forseti sem fær ekki stuðning 2/3 þingsins eigi ekki að vera forseti. Ég álít enn fremur að bæði sitjandi virðulegur forseti og fjölmargir aðrir kandídatar fyrir þá stöðu færu létt með að afla sér slíks fylgis.

En það er eins og hv. þingmaður sagði á undan mér að þegar á reynir, þegar stóru erfiðu málin koma inn þar sem eru mjög skýr mörk milli ríkisstjórnar og restarinnar af Alþingi, þá virðist þetta vera til trafala og er til trafala. Ég veit að virðulegum forseta þykir sjálfum mjög óþægilegt að sitja undir slíku og ég tel að forseta þyki það mjög erfitt gagnvart samflokksmönnum sínum og fólki í ríkisstjórn, því að ef forseti Alþingis tilheyrir ríkisstjórnarflokki þá styður hann ríkisstjórnina að sjálfsögðu. Og það er vandamál, virðulegi forseti, það er vandamál í landi þar sem á að vera aðskilnaður milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Ég mundi meira að segja ganga svo langt að segja að það væri mjög stórt vandamál.

En það er oft mjög einfalt að leysa mjög stór vandamál. stundum er það mjög einfalt. Ein einfaldasta leiðin til þess að laga stóran hluta af því sem er að hér á bæ, virðulegi forseti, væri að mínu mati að 10% kjörbærra manna gætu krafist bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvarðanir sem Alþingi hefur tekið. Mér þykir sú breyting enn fremur mjög, mjög sjálfsögð og kann illa að meta málflutning þeirra sem eru á öndverðum meiði, enda um afskaplega sjálfsagðan rétt að ræða að mínu mati. Það er auðvitað vegna þess að ég er þeirrar skoðunar.

Það er ýmislegt fleira sem má laga á Alþingi en eitt af því sem er sjálfsagt að mínu mati er að fara þá leið að forseti Alþingis sé kjörinn með auknum meiri hluta á Alþingi. Annað sem mér þykir sjálfsagt og ég botna stundum ekkert í hvers vegna er ekki löngu búið að koma á er að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn. Mér finnst mjög skrýtið að ráðherrar hafi atkvæðisrétt á Alþingi. Sömuleiðis tel ég það tvímælalaust hafa mjög óeðlileg áhrif á framgang mála á Alþingi og störf forseta og óhjákvæmilega á forgangsröðun mála hér, á ákvarðanir um það hvað fari í atkvæðagreiðslur og hvenær o.s.frv.

Þá vil ég einnig segja að ég hef sérstakar mætur á sitjandi virðulegum forseta, sem er einnig hv. 2. þm. Norðvest., Einari K. Guðfinnssyni. Ég tel hann góðan forseta en ég tel hann hins vegar vera í mjög vondri stöðu þegar átakamál koma upp, eins og rammaáætlun í sumar. Þá getur virðulegur forseti ekki verið raunverulegur málsvari alls þingsins. Hann getur það ekki ef hann tilheyrir meirihlutaflokkum.

Það er hægt að fara aðrar leiðir. Ein hugmynd sem ég hef stundum viðrað en ekki haft tækifæri til að rökræða við nógu marga til að sjá alla vinkla á er sú hugmynd að forseti Alþingis megi ekki tilheyra ríkisstjórnarflokki. Ég tel reyndar að þá væri kannski sniðugri leið að hafa það þannig að ríkisstjórn mætti ekki tilheyra meiri hluta þingsins, að það væri regla að það væri alltaf minnihlutastjórn, það væri stjórn sem þyrfti að passa sig, og það væri Alþingi sem réði.

Það er ekki eðlilegt að allt valdið sé á sömu hendi eða sömu höndum öllu heldur. Og það er ekki eðlilegt þegar við göngum til atkvæða í alþingiskosningum og kjósum okkur þingmenn að efstu þingmennirnir hverju sinni fái framkvæmdarvaldið í kaupbæti. Það er mjög óeðlilegt fyrirkomulag að mínu mati. Mér finnst sjálfsagt að breyta því.

Með hliðsjón af þeim fjölmörgum hugmyndum sem ég gæti rakið til þess að bæta störf þingsins og efla lýðræði og skerpa á því á Íslandi þá tel ég þessa tillögu, sem er lögð fram að frumkvæði hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, vera einstaklega sjálfsagða og mjög hógværa. Ég átta mig ekki á því hvaða rök gætu verið gegn henni, ef ég segi alveg eins og er, önnur en þau að ríkisstjórnin eigi að vera með löggjafarvaldið á sinni hendi alveg sama hvað, eitthvað sem ég hef aldrei heyrt neinn rökstyðja og veit ekki hvernig menn mundu fara að því að rökstyðja. Það er frekar að menn tali ekki um þessi mál en að þeir færi fram einhver rök. Svo má vel vera að það séu til rök en ég hef ekki heyrt þau.

Það er svo sem ekki meira að segja um þetta. Þetta er hógvær tillaga. Hún er mjög sjálfsögð að mínu mati. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og öðrum meðflutningsmönnum tillögunnar fyrir að leggja hana fram. Ef Alþingi starfaði eins og ég hygg að meiri hluti almennings telji að Alþingi eigi að starfa, þá mundi þessi tillaga fljúga í gegn, hún yrði afgreidd hratt og örugglega og ekki nóg með það heldur held ég að virðulegur forseti sjálfur mundi greiða henni atkvæði sitt, enda engin ástæða til annars.