145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ.

184. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um framtíðaruppbyggingu Laxnessseturs að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Flutningsmenn auk þeirrar er hér talar eru Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hjörvar, Össur Skarphéðinsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Heiða Kristín Helgadóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson og Birgitta Jónsdóttir.

Hæstv. forseti. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samvinnu við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ og stjórn Gljúfrasteins að hefja uppbyggingu Laxnessseturs að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Leiðarljós Laxnessseturs verði að halda á lofti minningu Halldórs Laxness, veita fræðslu um verk hans og leggja áherslu á að Mosfellssveit og -bær var hans heimabyggð. Þar verði miðstöð allrar þekkingar um Halldór Laxness. Laxnesssetur verði jafnframt bókmenntasetur þar sem aðstaða verði til rannsókna og fræðistarfa.“

Hæstv. forseti. Á árinu 2015 voru 60 ár síðan Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels og af því tilefni er tímabært að horfa til þess að byggja upp menningarhús, eða Laxnesssetur, að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Landsvæði hefur þegar verið tekið frá og tryggt til að byggja Laxnesssetur með tengingu við heimili skáldsins að Gljúfrasteini.

Framtíðarsýn fyrir safnið að Gljúfrasteini, sem tók til starfa haustið 2004, var skilgreind í kjölfar stefnumótunarvinnu fyrir safnið og helstu niðurstöður voru þær að Gljúfrasteinn yrði eitt helsta menningarsetur þjóðarinnar og þekktur áfangastaður á leið til Þingvalla. Hlutverk Gljúfrasteins væri að vera heimili Halldórs Laxness, lifandi safn sem stæði vörð um lífsstarf hans.

Það er ljóst að Gljúfrasteinn stendur framarlega í flokki dýrmætra staða í íslenskri menningarsögu. Sú uppbygging sem þegar hefur átt sér stað er um margt til mikillar fyrirmyndar og hefur starfsemin svo sannarlega sannað gildi sitt. Gljúfrasteinn var friðaður 7. júní 2010 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001, um húsafriðun, og er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum, nr. 141/2011.

Húsið sjálft er því í raun safngripur og einstakt að innbúið allt sé varðveitt óbreytt frá því að Halldór Laxness og fjölskylda hans bjuggu þar. Safnkosturinn samanstendur af innbúinu öllu, listaverkum, bókasafni, ljósmyndum og skjölum. Möguleikar til rannsókna og miðlunar eru óþrjótandi en mikilvægt er að hægt sé að tryggja örugga varðveislu safnkostsins til framtíðar, bæði í húsinu sjálfu og í geymslu.

Starfseminni í dag er mjög þröngur stakkur skorinn vegna plássleysis í húsinu. Til þess ráðs var gripið að nýta bílskúr fyrir móttöku, miðasölu, verslun og margmiðlunarsýningu. Frá upphafi var litið svo á að sú ráðstöfun væri til bráðabirgða. Sömuleiðis var þegar ljóst að aðstaða starfsfólks væri óviðunandi. Þá eru bílastæði og aðkoma að húsinu frá Þingvallavegi ekki viðunandi.

Frá því að safnið að Gljúfrasteini var opnað 2004 hafa um 75.000 gestir heimsótt safnið. Með góðu skipulagi og hjálp hljóðleiðsagnar hefur tekist að taka á móti stórum hópum.

Gljúfrasteinn, þar sem skáldið bjó og starfaði, verður áfram sá staður sem mun laða gesti í heimsókn í Mosfellsdalinn. Mosfellsdalurinn er dalurinn þar sem Halldór Laxness ólst upp og bjó lengstan hluta ævi sinnar og dalurinn er sögusvið ýmissa verka hans.

Enn fremur má nefna að í dalnum eru tengsl við bókmenntasögu þjóðarinnar í þúsund ár. Um Mosfellsdalinn er meðal annars fjallað í Egils sögu, Gunnlaugs sögu Ormstungu og Hallfreðar sögu vandræðaskálds. Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú og við hina fornu höfn í Leiruvogi styðja þessa tengingu.

Það má og geta þess að það er einlægur vilji heimamanna að rækta minningu Nóbelsskáldsins. Sveitarfélagið Mosfellsbær hefur meðal annars sett það í menningarstefnu sína að halda á lofti minningu Halldórs Laxness, framlagi hans til íslenskrar menningar og heimsbókmenntanna.

Það er tilgangur þessarar þingsályktunartillögu að Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ verði menningarsetur með megináherslu á líf og starf Halldórs Laxness en jafnframt alhliða menningarsetur með áherslu á bókmenntir, rannsóknir, fræðslu og miðlun.

Hæstv. forseti. Það er ósk mín og von að þessi tillaga til þingsályktunar fái vandaða umfjöllun í nefnd en að lokum komi hún aftur inn til síðari umr. og atkvæðagreiðslu. Ég sem framsögumaður þessarar tillögu til þingsályktunar tel að það væri Alþingi Íslendinga til sóma að samþykkja slíka tillögu í virðingarskyni við skáldið.