145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar.

169. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar, sem ég stend að ásamt tíu öðrum hv. þingmönnum frá fimm þingflokkum.

Efni tillögunnar er að skipuð verði nefnd þingmanna til að vinna að úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar í landinu og gera tillögu að úrbótum. Í tillögunni er lagt til að nefndin verði skipuð sex þingmönnum, einum frá hverjum þingflokki á Alþingi. Skrifstofa Alþingis sjái nefndinni fyrir starfsaðstöðu, starfsmanni og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð auk þess sem viðeigandi stofnanir hins opinbera munu vera nefndinni til ráðgjafar. Nefndin mun skila niðurstöðum sínum með skýrslu til Alþingis eigi síðar en tíu mánuðum eftir skipunardag.

Það er ein af frumskyldum ríkisins að starfrækja stöðugan og traustan gjaldmiðil fyrir landið enda er aðgangur að stöðugum gjaldmiðli mikilvæg forsenda blómlegs efnahags. Því miður hefur alls ekki tekist að stýra peningamálum Íslands nægilega vel í gegnum tíðina og það kallar á að þingmenn kynni sér málið rækilega, ígrundi hvað hafi farið úrskeiðis og geri tillögur til úrbóta.

Seðlabanki Íslands var stofnaður árið 1961 með það meginhlutverk að starfrækja gjaldmiðil með stöðugan kaupmátt, en það hefur ekki tekist betur en svo að kaupmáttur krónunnar hefur rýrnað um 99,7% á 50 árum. Á því tímabili féll gengi krónunnar margsinnis. Verðbólga var viðvarandi og var hæst um 80% árið 1983 á einu ári. Eftir að bankarnir voru einkavæddir og gengi krónunnar fór að fljóta jókst peningamagn gríðarhratt og virtist Seðlabankinn ekki hafa úrræði sem dugðu til að sporna við aukningunni. Peningamagn nítjánfaldaðist því aðeins á 14 árum og að lokum hrundi bankakerfið, gengi krónunnar hrundi um 50% og síðan 2009 höfum við búið við höft á fjármagnshreyfingar milli landa vegna ójafnvægis í peningakerfinu. Þar sem óhóflega hröð peningamyndun er án nokkurs vafa einn af mikilvægari orsakaþáttum þessara ófara gjaldmiðilsins hlýtur að vera mikilvægt að löggjafinn taki peningamyndun í landinu til nánari skoðunar.

Án nokkurrar umræðu eða án sérstakrar ákvörðunar á hinu háa Alþingi hefur meginþungi peningamyndunar í landinu færst frá Seðlabanka til innlánsstofnana. Þessi þróun hefur átt sér stað á nokkrum áratugum í krafti nýrrar tækni. Í stað seðla og myntar nota landsmenn innstæður í bönkum sem gjaldmiðil. Þessi útvistun peningamyndunarinnar til innlánsstofnana, sem Alþingi hefur aldrei rætt til hlítar, hefur haft miklar og alvarlegar afleiðingar eins og nánar er vikið að í greinargerð með frumvarpinu.

Ég vil nota tækifærið til að nefna nokkra þætti, m.a. þann að Seðlabankinn virðist hafa sáralitla stjórn á peningamyndun innlánsstofnananna. Eins og kunnugt er þá skapa viðskiptabankar nýja peninga í formi innstæðna þegar þeir veita lán, en þegar lán eru endurgreidd hverfa peningar aftur úr umferð. Seðlabankinn skapar aðeins lítið brot af peningamagninu í landinu. Skorti viðskiptabanka grunnfé vegna mikilla útlána á Seðlabankinn vart annan kost en að útvega það grunnfé, að öðrum kosti missir hann stjórn á vaxtastiginu eða skapar hættu á lausafjárskorti hjá bönkum. Seðlabanki Íslands varð því að útvega bönkum grunnfé á meðan þeir nítjánfölduðu peningamagn í landinu á tímabilinu 1994–2008. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í því skyni að reyna að sporna við peningaaukningunni. Hann varaði sterklega við þenslunni en það hafði lítil áhrif. Bankar héldu áfram að þenja út lánabóluna með vaxandi hraða þar til hún sprakk.

Það má einnig nefna að á tímabilinu 1986–2006 var hagvöxtur að meðaltali 3,2% á ári. Á sama tímabili juku bankarnir peningamagn að meðaltali um 18,6% á ári, sex sinnum hraðar og sex sinnum meira en hagvöxturinn var. Þetta má telja mikilvægan orsakaþátt verðbólgu og gengisfellinga í landinu. Seðlabankinn reyndi að bregðast við með því að hækka stýrivexti ítrekað. Þeir fóru úr 5,6% árið 2004 í 18% árið 2008. Þreföldun stýrivaxta dugði ekki til að draga úr útlánaaukningu og peningamagnsaukningu, en hún leiddi hins vegar til ýmissa aukaverkana svo sem innflæðis á kviku erlendu lánsfé og styrkingar á gengi krónunnar. Það má tala um ofris á gengi krónunnar. Bankarnir hófu að bjóða gengistryggð lán í stórum stíl. Árið 2008 urðu afleiðingar af of miklu peningamagni og lánabólu ekki lengur umflúnar. Bankarnir féllu og krónan með og gengi bandaríkjadollars fór úr 63 kr. í 120 kr.

Sú staðreynd að Seðlabankinn virðist ekki hafa haft möguleika á því að hægja á þessari peningamagnsaukningu með stýritækjum sínum kallar á að þingið skoði þetta betur, í fyrsta lagi það fyrirkomulag að fela bönkunum að búa til það fé sem þarf að vera í landinu og í öðru lagi þau stýritæki sem Seðlabankinn hefur til þess að fjarstýra peningamagnsaukningu.

Annað vandamál sem er við núverandi fyrirkomulag og útvistun peningamyndunar er að í stað þess að Seðlabankinn og þar með ríkissjóður njóti myntsláttuhagnaðar af þeim peningum sem settir eru í umferð hefur Seðlabankinn farið á mis við myntsláttuhagnað af þeim peningum sem hann þarf að búa til. Frá hruni held ég að megi segja að seðlamagn í umferð hafi aukist úr 10 milljörðum í 50 milljarða, lauslega áætlað. Þetta er 40 milljarða aukning á seðlamagni og sú aukning er nánast hreinn myntsláttuhagnaður fyrir Seðlabankann. Ef Seðlabankinn hefði einnig í gegnum árin tekið að sér að búa til það rafræna reiðufé sem hagkerfið þarf, þá má áætla gróft til tekið að runnið hefðu mörg hundruð milljarðar í ríkissjóð í formi myntsláttuhagnaðar, hugsanlega hátt í 400 milljarðar. Það má því segja að ríkissjóður sé 300–400 milljörðum verr staddur en hann væri ef Seðlabankinn mundi rækja það hlutverk sitt að búa til nútímalegan gjaldmiðil fyrir hagkerfið í stað þess að útvista því verkefni til innlánsstofnana. Þetta er mikið og stórt hagsmunamál fyrir ríkissjóð, fyrir fólkið í landinu, skattgreiðendur. Það þarf að taka afstöðu til þess hvort við viljum áfram útvista þessu verkefni til stofnana sem hafa farið svona illa með það verkefni og offramleitt peninga í því magni sem við höfum upplifað.

Annað vandamál við núverandi kerfi er hversu hagkerfið er ofurselt því að innstæðurnar virki sem gjaldmiðill. Innstæður í bönkum eru í raun skuldir bankanna við okkur sem eigum innstæðurnar og við erum ofurseld því að bankarnir séu ávallt greiðslufærir. Gjaldmiðillinn sjálfur í landinu sem er að uppistöðu, eða 90%, rafrænar innstæður í bönkum má ekki hætta að virka því þá getum við ekki lengur farið út í búð og keypt vörur eða átt viðskipti. Gjaldmiðillinn er svo mikilvægur, þessar skuldir bankanna, að það er óhjákvæmilegt fyrir ríkissjóð að bregðast við ef einhver banki lendir í vandræðum og getur ekki staðið í skilum. Það má því að segja að á bankakerfinu í heild og skuldum þess ríki óhjákvæmileg ríkisábyrgð. Þetta er eitt af því sem hægt væri hugsanlega að lagfæra með því að skoða málið ofan í kjölinn.

Þessi óhjákvæmilega ríkisábyrgð á innstæðum eykur jafnframt áhættusækni bankakerfisins. Þar sem innstæðueigendur geta ávallt reiknað með því að ríkið ábyrgist innstæður þeirra hafa þeir engan hvata til að velja banka sem leggur áherslu á öryggi umfram ávöxtun. Áhersla banka og stjórnenda hans verður því sú að hámarka ávöxtun og arðsemi sína, en til þess þarf að auka áhættusækni bankans.

Við þekkjum dæmið um Landsbankann sem hóf árið 2006 að bjóða innlánsvexti sem voru með því hæsta sem þekktist í Bretlandi á þeim tíma. Það virtist sem almenningur í Bretlandi hefði engar áhyggjur af því hvort þessi banki væri traustur. Hann treysti því fyllilega að innstæðuhöfum yrði bjargað, enda lagði almenningur, 300 þúsund viðskiptavinir, bankanum til 4 milljarða punda á Icesave-reikninga Landsbankans þar í landi. Þessir hvatar, þ.e. skortur á áhuga á því hvort bankinn er traustur, leiddu til rangrar niðurstöðu fyrir skattgreiðendur í Bretlandi og hér á Íslandi.

Síðan er annað vandamál sem er óleyst og nefndin gæti skoðað ef hún færi í þetta, en það er sú staðreynd að innstæðutryggingakerfið nær einfaldlega ekki tilgangi sínum á smáum markaði. Á Íslandi eru þrír stórir bankar með meira en 90% af innstæðum. Lendi einn þeirra í vanda mundi Tryggingarsjóður innstæðueigenda aldrei duga til að afstýra áhlaupi og hugsanlegri keðjuverkun á þann banka. Stjórnvöld munu því áfram vera knúin til að lýsa yfir ríkisábyrgð til að afstýra áhlaupi ef til þess kæmi.

Innstæðutryggingar valda kostnaðarauka í rekstri banka en skapa ekki raunverulega tryggingavernd hér á landi. Það er hugsanlegt að slíkt kerfi virki í löndum þar sem eru kannski hundruð banka sem mynda með sér samtryggingarkerfi, en hér á landi er fyrirsjáanlega ekki mögulegt að ná fram þeim tryggingaáhrifum. Við þurfum að leita annarra leiða, m.a. þurfum við að skoða hugsanlega þá leið að í stað þess að fela bönkum að búa til gjaldmiðil í formi sinna eigin skulda þá mundum við frekar fela Seðlabankanum að búa til þann trausta gjaldmiðil sem hagkerfið þarf svo nauðsynlega á að halda.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir margvíslegar úrbætur á lagaumgjörð fjármálastofnana hefur ekki enn verið tekið á þeim vanda sem felst í getu viðskiptabanka til að búa til peninga í formi innstæðna. Það fyrirkomulag hefur sætt vaxandi gagnrýni sérfræðinga hér og erlendis, enda veitir það bönkum bæði hvata og svigrúm til að auka peningamagn langt umfram þarfir hagkerfisins. Fyrrum bankastjóri Englandsbanka, Mervyn King lávarður, hefur kallað þetta fyrirkomulag verst allra mögulegra peningakerfa og hvetur eindregið til umbóta.

Það er orðið löngu tímabært og í raun bráðnauðsynlegt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar almennings í landinu geri sjálfstæða úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar, myndi sér skoðun og setji fram tillögur til úrbóta á löggjöfinni eftir því sem við á. Það þarf hver að svara því fyrir sig hvort hann vill áfram búa við gjaldmiðil sem er í raun skuld innlánsstofnunar, eða hvort betra væri að Seðlabankinn gæfi sjálfur út allan þann rafræna gjaldmiðil sem nútíminn kallar eftir en ekki bara seðla og mynt. Slíkur gjaldmiðill sem gefinn væri út af traustum Seðlabanka væri ekki ofurseldur því að einstakir bankar væru ávallt greiðsluhæfir. Bankar gætu þá ekki þanið út peningamagn með sama hætti og þeir geta nú. Ágóði af peningamyndun mundi renna til ríkisins til sameiginlegra verkefna og til lækkunar skatta í stað þess að auka hagnað bankanna sem virðist nægur fyrir.

Þótt endurbætt fyrirkomulag peningamyndunar sé mikilvægt er það að sjálfsögðu ekki lausn á öllum vandamálum fjármálakerfisins, en það er samt afar mikilvægur þáttur sem nauðsynlegt er að þingið taki til gaumgæfilegrar skoðunar eigi sjaldnar en á hálfrar aldar fresti. Nú er komið að því.