145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

söluferli Borgunar.

[10:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Eftir að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir í ræðustól Alþingis að Borgunarmálið hefði verið klúður, sem er orð sem hæstv. forsætisráðherra notaði í ræðustól Alþingis, fylgdi fjármálaráðherra í hans spor, þó að ekki væri í ræðustól, og samsinnti honum í fréttaviðtali. Þar segir hann að það hafi verið mistök að standa svona að málum, að Borgunarmálið hafi í raun falið í sér að kaupendur hafi hagnast óeðlilega mikið á málinu.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, fyrst hann er sammála því að um klúður hafi verið að ræða, af hvers hálfu það klúður hafi verið, hvort ekki hafi verið klúður af hálfu fjármálaráðherra sjálfs að grípa ekki strax inn í málið með sérstakri athugun eins og ítrekað var kallað eftir. Sú sem hér stendur óskaði í janúar 2015 skýringa á því að hluturinn var settur í lokað söluferli. Hvers vegna hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki aðhafst í máli Borgunar og sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun á þessum tíma?

Nú er ástæða til að endurvinna trúverðugleika. Það stendur til að selja ríkiseignir í stórum stíl meðan trúverðugleiki íslenska ríkisins, Landsbankans og fjármálaráðherra hefur beðið hnekki. Það er ljóst og liggur fyrir að fjármálaráðherra sjálfur ber pólitíska ábyrgð á málinu, undan því verður ekki vikist, og raunar málaflokknum öllum og það hlýtur að vera krafa okkar allra sem hér höfum með höndum aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu að hæstv. fjármálaráðherra tali skýrt í þessum efnum.