145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

öryggismál ferðamanna.

[10:50]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að við sem erum að ræða þetta hér gætum fullkomlega sannmælis í þessari umræðu. Ég spurði um aðgerðirnar, ég hef spurt í hvað þeir fjármunir sem ráðherra nefndi eru að fara. Að hvaða aðgerðum er unnið? Hver eru brýnustu verkefnin að mati ráðherrans?

Það kemur fram í máli hennar að menn eru sammála um aðgerðir. En hver eru verkin? Hvað hefur verið gert?

Auðvitað skal maður ekki gera lítið úr mikilvægi vandaðrar áætlanagerðar en það þarf líka að forgangsraða. Núna kalla ákveðnir staðir á brýnar úrbætur þar sem hættan hefur verið ljós í ár og áratugi. En það er ekkert farið að gerast.

Hvað er að gerast varðandi öryggismál ferðamanna í Reynisfjöru? Hvenær er von á því að gripið verði til afgerandi úrbóta þar?

Það er þetta sem málið snýst um, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, og ég óska eftir skýrari svörum frá ráðherranum um það hvaða athafnir, verk og gjörðir séu fram undan alveg á næstunni í framhaldi af því ástandi sem hefur skapast.