145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

íþróttakennaranám á Laugarvatni.

[10:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er ekki bara um rekstrarmál Háskóla Íslands að ræða. Hér er um pólitískt mál að ræða, bæði menntapólitískt og byggðapólitískt. Það sem farið hefur verið fram á er að fresta þessari ákvörðun um eitt ár og leggja fjármagn til þess að greina betur stöðu skólans, hvernig mætti markaðssetja skólann og styrkja háskólaþorpið í Bláskógabyggð um leið. Ég minni á að hæstv. ríkisstjórn stóð að baki flutningi Fiskistofu til Akureyrar vegna byggðasjónarmiða. Það kostaði miklu fleiri milljónir en hér er farið fram á. Það er aðeins verið að fara fram á að fresta ákvörðun um eitt ár og gera raunverulega tilraun til að styrkja námið. Það er hvorki hægt að fara svona með deildina né samfélagið sem hefur þjónað skólanum. Þetta er pólitískt mál og það á að leysa það á pólitískum vettvangi en ekki eingöngu út frá rekstrartölum Háskóla Íslands.