145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

staða ungs fólks.

[10:59]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningum til hæstv. fjármálaráðherra um stöðu ungs fólks á Íslandi, sérstaklega ungra barnafjölskyldna og ungs menntafólks. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir uppgang í samfélaginu, þann sama uppgang og hæstv. ráðherra verður oft tíðrætt um, hefur ein kynslóð, ef við lítum heilt yfir, setið eftir í efnahagslegu tilliti. Þetta er unga fólkið. Við þekkjum umræðuna um suma aðra hópa í samfélaginu sem hafa það ekki nógu gott og það eru auðvitað öryrkjar og sumir aldraðir, en það sem ég vil ræða í dag er ekki um einhverja hópa innan ákveðins mengis heldur í raun heila kynslóð. Það er ungt fólk sem vinnur hörðum höndum að því mennta sig, það er að eiga börn, það er að reyna að koma sér upp húsnæði fyrir sig og sína og það er að sanna sig og vinna sig upp í starfi. Þetta er fólkið sem borgar öll þau gjöld sem fylgja börnum og eru stór partur af heimilisbókhaldinu. Þetta eru gjöld eins og fyrir leikskóla, frístundaheimili, skólamáltíðir, íþróttaiðkun, tónlistarnám og annað slíkt. Þetta er fólkið sem er að kaupa sér sína fyrstu íbúð og er að spara fyrir útborgun. Þetta er fólkið sem hefur ekkert forskot á markaðnum, engar eignir til að setja upp í. Meðan á sparnaðinum stendur borgar þetta sama fólk oftast himinháa leigu.

Í ágætri úttekt Fréttatímans á föstudaginn var gerður samanburður á efnahagslegri stöðu aldurshópa í íslensku samfélagi. Á meðan kjör miðaldra og eldra fólks eru í dag nokkuð betri en þau voru um aldamótin eru kjör ungs fólks umtalsvert lakari, tekjur lægri og eignastaða verri. Á þessum uppgangstímum eru samkvæmt greiningu frá ASÍ fleiri Íslendingar að flytja frá landinu en flytja til þess. Þetta hefur aldrei áður gerst á uppsveiflutímum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af þessu. Hann heldur um peningaveskið og sér til dæmis væntanlega fram á aukin útgjöld til heilbrigðismála vegna öldrunar þjóðarinnar. Fólkinu sem borgar megnið af sköttum til þess að standa undir því (Forseti hringir.) þarf að finnast það hafa efni á að vera hérna. Barnafjölskyldur þurfa að nota stóran hluta tekna sinna í að reka sig og fjölskyldur sínar og ég vil spyrja hvort ráðherrann sé ekkert órólegur yfir því hvernig staða þeirra er.