145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

staða ungs fólks.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að það er unga kynslóðin sem kom einna verst frá hruninu. Þá er ég kannski sérstaklega að vísa til þeirrar kynslóðar sem hafði, þegar bankarnir féllu og verðbólgan fór upp úr öllu valdi, nýlega komið inn á húsnæðismarkaðinn. Staðreyndin er sú að þeir sem voru í þeirri stöðu töpuðu eigin fé sínu og í heildina varð eiginfjárstaða þess hóps neikvæð. Okkur hefur orðið verulega ágengt í að rétta hlut þessa hóps en eftir sem áður stendur unga fólkið á Íslandi frammi fyrir nokkuð erfiðum aðstæðum.

Ég held þó að ekki sé allt svart í þessu. Við skulum nefna nokkur dæmi. Í fyrsta lagi: Atvinnustig er mjög hátt. Slakinn er farinn úr hagkerfinu. Eitt helsta hagsmunamál í efnahagslegu tilliti fyrir ungt fólk er að geta fengið starf að loknu námi. Þær aðstæður eru til staðar í hagkerfinu í dag. Það er stórmál. Næsta atriði er aðgengi að lánum. Aðgengi að lánum hefur verið nokkuð gott og við höfum séð stóraukningu í fyrstu íbúðakaupum að undanförnu, þ.e. hlutfall ungs fólks sem er að taka lán fer vaxandi. Við höfum líka búið við stöðugleika í verðlagi, sem skiptir máli. Lægstu laun hafa verið að hækka samkvæmt nýjustu kjarasamningum og kaupmáttur ráðstöfunartekna að vaxa. Hann fór upp um 5% 2014 og nærri 7% 2015. Þannig að ég held að myndin sé ekki alveg svona dökk eins og hv. þingmaður lýsir.

Vegna allra þeirra gjalda sem er vísað til verður að segjast eins og er að það er samspil af því sem við erum að gera í þinginu og hins vegar (Forseti hringir.) því sem er að gerast á sveitarstjórnarstiginu, sem skiptir máli. En þessi ríkisstjórn verður ekki sökuð um að hafa aukið byrðarnar vegna þess að við höfum verið að lækka skatta, bæði tekjuskatta og önnur opinber gjöld.