145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál og vil segja hér í upphafi að mér finnst hv. þingmaður nálgast viðfangsefnið af yfirvegun. Ég fagna því að menn séu tilbúnir til að ræða þetta á þeim forsendum og með málefnalegum hætti.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er rætt um viljann til að afnema verðtryggingu af nýjum neytendalánum. Eins og menn þekkja var skipuð sérstök nefnd til að fara yfir það og skýrsla nefndarinnar liggur fyrir. Einn nefndarmaður skilaði séráliti sem ég ætla ekki að gera sérstaklega grein fyrir hér. Þetta er nokkuð þétt skýrsla. Hún fjallar um eðli verðtryggingarinnar. Í skýrslunni eru tillögur um það hvernig við getum þrengt að almennri notkun verðtryggingarinnar og hvers vegna það er æskilegt.

Hér gefst ekki svigrúm til að fara yfir öll efnisatriði skýrslunnar, en ég ætla hins vegar að nefna að í skýrslunni eru færð fyrir því mjög sterk rök að það fyrirkomulag sem við höfum haft á lánamarkaði, með jafn útbreiddri notkun verðtryggingar og raun ber vitni, hafi í för með sér vissa galla. Á bls. 15 í skýrslunni er sérstaklega talað um helstu galla verðtryggingar. Ég ætla að nefna hér nokkra punkta upp úr skýrslunni.

Rætt er um misvægi óverðtryggðra launa og verðtryggðra lána á verðbólgutímum, sem sagt að lánin rjúki upp og launin verði miklu seinni að taka við sér og jafnvel að eignaverð falli á sama tíma. Við þekkjum það frá 2009. Það hefur tekið langan tíma að finna nýtt jafnvægi í þessu. Nú eru eignir væntanlega almennt að komast upp fyrir verðbólguskotið. Laun hafa líka náð að vinna upp fallið í kaupmætti sem varð út af verðbólguskotinu, en þetta er einn af ókostunum. Það er hætta á yfirveðsetningu vegna þessa. Hver kannast ekki við það?

Við vorum með yfirveðsett heimili um allt samfélagið í kjölfar verðbólguskotsins sem kom. Það er ákveðinn freistnivandi til útlánaþenslu, þ.e. mjög löng jafngreiðsluverðtryggð lán gefa fólki tækifæri til að taka lán þar sem fólk er í raun ekki að greiða í hverjum mánuði alla vaxtabyrðina, heldur taka hana að hluta til að láni, sérstaklega við þær aðstæður að verðbólga rís aðeins. Það eru neikvæð áhrif á virkni peningastefnunnar eins og hér er rakið. Hér er ekki tími til að fara í öll þessi atriði, en þetta skiptir miklu máli.

Nefndin lagði til að við mundum sérstaklega skoða tvennt; annars vegar að hækka lágmarkstíma verðtryggðra lána úr fimm árum upp í tíu fyrir neytendalán. Það höfum við verið með til skoðunar. Við höfum fengið umsögn Seðlabankans sem veltir upp kostum og göllum þess að gera þetta, leggst ekki alfarið gegn þessu, en varar við því við ákveðnar aðstæður. Úr því erum við að vinna og við erum að byggja undir það að geta tekið ákvörðun um þessa tillögu.

Hin tillagan var síðan sú að við mundum taka af markaði 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Það sem við höfum verið að gera í ráðuneytinu er að afla upplýsinga um það hvaða áhrif það hefði á neytendur, þ.e. hversu hátt hlutfall þeirra sem hafa verið að taka þetta löng lán mundi ekki standast greiðslumat á 25 ára láni sem nefndin leggur til að við mundum vísa fólki í. Nú er ég ekki kominn með svör frá öllu fjármálakerfinu, en við erum komin með mjög marktæk gögn sem sýna að það geti verið þannig að allt að 40%, og jafnvel umfram það, þess fólks sem tekur 40 ára jafngreiðslulán mundi ekki standast greiðslumat á 25 ára láni. Hvaða fólk er það? Það er fólkið sem hefur minnst á milli handanna.

Nú verður að halda því til haga að í skýrslunni kom skýrt fram að þetta yrði krefjandi fyrir þennan hóp og að grípa yrði til mótvægisaðgerða. Það er úr þessu sem við erum að vinna. Í hve miklum mæli er í sjálfu sér hægt að grípa til mótvægisaðgerða? Ættum við mögulega að hafa þennan valkost áfram inni fyrir allra tekjulægsta fólkið? Varla viljum við gera breytingu sem á endanum leiðir ekki til annars en þess að eitt lánaformið fer út og ríkið þarf síðan að styðja við þann hóp sem helst notaði það lánaform með stórauknum bótagreiðslum? Ég held að það sé enginn að ræða um það (Forseti hringir.) í sjálfu sér.

Þetta er nokkuð flókið viðfangsefni og ég vísa í skýrsluna til dýpri skilnings á eðli verðtryggingarinnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel að til mikils sé að vinna, að draga úr almennri notkun hennar, en það verður að gerast þannig við séum (Forseti hringir.) ekki að þrengja að þeim hópum sem minnst hafa á milli handanna og hafa verið að kjósa þennan valkost til þess að komast í eigin húsnæði.